2.3 C
Grindavik
27. nóvember, 2021

Flóð norðan við skíðasvæðið í Hlíðarfjalli

Skyldulesning

Flóðið varð norðan við Stromplyftuna, við Mannshrygg, en það er …

Flóðið varð norðan við Stromplyftuna, við Mannshrygg, en það er utan skíðasvæðisins en stundum nýtt af uppgöngufólki.

Ljósmynd/Skíðasvæðið Hlíðarfjalli

Í gær um klukkan 14 féll snjóflóð utan við skilgreint skíðasvæði í Hlíðarfjalli. Hefur flóðið verið tilkynnt Veðurstofunni, en áætlað er að það sé að stærð 2, um 60-80 metra breitt og 300 metra langt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Er uppgöngufólk, þ.e. bæði gangandi og fólk á fjallaskíðum, sérstaklega beðið að hafa gætur á sér sé það á ferð.

Veðurstofan hefur undanfarna daga varað við snjóflóðahættu á Tröllaskaga og hefur hættan verið metin töluverð. Á það einnig við um norðanverða Vestfirði sem og suðvesturhornið, en eftir að snjó hafði lagt til fjalla hlýnaði og rigndi víða á láglendi á miðvikudaginn. Í dag og gær hefur svo verið hvasst og él og segir Veðurstofan að hætta sé á óstöðugum vindflekum sem myndast geta við slíkar aðstæður.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um mat á snjóflóðaaðstæðum á vef Veðurstofunnar.

Flóðið í gær féll norðan við Stromplyftu, á Mannshrygg. Samkvæmt upplýsingum frá skíðasvæðinu fór flóðið ekki inn á skíðasvæðið, en annað systurflóð féll á svipuðum tíma. Ekki er hægt að meta umfang flóðsins frá í gær betur vegna veðurs, en mjög hvasst er á svæðinu. Áformað er að skoða það nánar á morgun ef veður leyfir.

Gert er daglegt snjóflóðaáhættumat á og í kringum skíðasvæðið í Hlíðarfjalli, en umferð er takmörkuð þegar það á við og vakin er sérstök athygli á því að þegar rautt ljós blikkar á Skálabraut, sem er nestishús við hótelið, þá sé allt svæðið lokað fyrir allri umferð af öryggisástæðum.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir