4 C
Grindavik
7. mars, 2021

Flokkarnir: Undirbúningur framboða fer að hefjast

Skyldulesning

Laugardagur, 5. desember 2020

Ætla má, að undirbúningur framboða í næstu alþingiskosningum hefjist fljótlega eftir áramót og er raunar þegar hafinn hjá Samfylkingunni í Reykjavík, sem er að prófa nýjar aðferðir við val á framboðslista.

Innan Sjálfstæðisflokksins er orðin hálfrar aldar hefð fyrir prófkjörum og þótt vera megi að veiran setji þeim einhverjar skorður, ætti að vera hægt að framkvæma þau með rafrænum hætti. Ef hins vegar yrði reynt að hverfa frá prófkjörum með vísan til veirunnar má búast við að það mundi mælast illa fyrir meðal flokksmanna.

Líklegt má telja, að allir flokkar leggi áherzlu á að hafa lokið framboðum fyrir eða í sumarbyrjun, þannig að hægt verði að nota sumarið í kosningabaráttuna.

Ákvörðunum um framboð fylgir alltaf viss spenna og umrót innan flokka og í einstökum kjördæmum verður hún meiri en í öðrum. Þannig verður athyglisvert að fylgjast með prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi vegna þess ágreinings, sem upp hefur komið innan flokksins í Vestmannaeyjum, sem kann að hafa áhrif í því.

Sjálfsagt verður ekki sama áherzla á prófkjör í öðrum flokkum en nokkuð ljóst er að brottför Þorsteins Víglundssonar af vettvangi stjórnmálanna er visst áfall fyrir Viðreisn og verður fróðlegt að sjá, hvort flokkurinn reynir að mæta því með einhverjum hætti.

Framsóknarflokkurinn þarf að huga vandlega að sínum framboðum vegna þess einkastríðs, sem háð er á milli hans og Miðflokksins.

Það er töluvert til í því sem Gunnar Smári Egilsson sagði fyrir skömmu, að það vanti verkalýðsforingja á þing. Það er ekki sízt umhugsunarefni fyrir Samfylkingu og VG. Hafa þeir flokkar alveg misst tengslin við rætur sínar?

Kannski ætla þeir að láta Ingu Sæland eftir að vera helzti málsvari þeirra þjóðfélagshópa á Alþingi, sem styrkir að sjálfsögðu hana og hennar flokk. 

Innlendar Fréttir