4 C
Grindavik
9. maí, 2021

Fluttu út fyrir 26,9 milljarða í mars

Skyldulesning

Marsmánuður var þokkalegur í útflutningi á ferskum afurðum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Í mars voru fluttar út ferskar sjávarafurðir fyrir 7,6 milljarða króna sem er 46% meira en í sama mánuði í fyrra og voru þær 28% af útflutningsverðmætum sjávarafurða í heild. Fram kemur í færslu á Radarnum að útflutningsverðmæti ferskra afurða hafi aldrei verið meira.

Þá nam útflutningsverðmæti sjávarafurða 26,9 milljörðum króna í mars og er það rúmlega 4% meira en í sama mánuði í fyrra. Aukningin er 2% mælt í erlendri mynt.

Það er þó ekki eingöngu aukning í ferskum afurðum og varð töluverð aukning í mars er varðar þær afurðir sem flokkaðar eru sem „aðrar sjávarafurðir“. Nam aukningin í þeim flokki 40%. Jafnframt varð 14% aukning í frystum og heilum fiski.

Þá stóð útflutningsverðmæti lýsis nánast í stað í mars, en samdráttur varð í öðrum afurðaflokkum. Mestur varð samdrátturinn í afurðaflokknum saltaðar og þurrkaðar afurðir, en útflutningsverðmæti þeirra í mars var um 31% minna. Útflutningsverðmæti frystra flaka dróst svo saman um tæp 11% á milli ára á föstu gengi, fiskimjöls um 12% og rækju um 30%.

Fram kemur í færslunni að ástæða þess að útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða hafi dregist mikið saman milli ára er talin vera að marsmánuður í fyrra var óvenju stór í þessum afurðaflokki í fyrra. En útflutningsverðmætin í þessum afurðaflokki í mars var svipað og það hefur að jafnaði verið í marsmánuði undanfarinn áratug.

4% samdráttur

Á fyrsta ársfjórðungi eru útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild rúmlega 65 milljarðar króna og er það 3% meira en á sama tímabili í fyrra, en um er að ræða 4% samdrátt í erlendri mynt.

Þá eykst verðmæti útfluttra ferskra afurða mest á milli ára á fyrsta ársfjórðungi eða um 20%. „Voru ferskar afurðir um 31% af útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild, en hlutfallið hefur aldrei verið svo hátt á fyrsta ársfjórðungi. Mestu munar um 21% samdrátt í útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða á tímabilinu og um 14% samdrátt í frystum flökum. Sjávarafurðir voru alls 40% af verðmæti vöruútflutnings á fjórðungnum, sem er svipað og það hefur verið að jafnaði undanfarinn áratug.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir