7 C
Grindavik
26. febrúar, 2021

Fólk rukkað um milljónir fyrir að greiða upp lánin sín

Skyldulesning

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, gerir uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs (ÍLS) að umtalsefni í nýrri grein á Vísir.is.

Um daginn unnu hjón mál gegn Íbúðalánasjóði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en þau höfðu verið rukkuð um fjögurra milljóna uppgreiðslugjald er þau greiddu upp húsnæðislán sitt. Mat dómurinn gjaldið ólögmætt. Það gæti haft miklar afleiðingar varðandi aðra lánþega sem hafa orðið að sæta uppgreiðslugjaldi.

Ólafur segir í grein sinni:

„Dómur héraðsdóms er fagnaðarefni. Óvíst er um framhaldið hvort ráðist verði í endurgreiðslur, eða hvort ÍLS lætur sverfa til stáls og áfrýjar til Landsréttar.“

Ólafur hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi um málið og í svari félagsmálaráðherra  kemur fram að á tímabilinu 2005 til 2013 voru húsnæðislán ÍLS með skilmálum um uppgreiðslugjöld hátt í 14 þúsund talsins. „Lán með uppgreiðsluþóknun voru fyrst veitt á árinu 2005 og allt til 1. nóvember 2013. Lán sem greidd voru upp með uppgreiðslugjaldi á árabilinu 2008-18 eru nærri 6.400 talsins. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi 2018 um uppgreiðslugjaldið,“ segir Ólafur.

Ólafur segir að reglugerð um uppgreiðslugjald hafi stangast á við lög og lántakendur hafi verið látnir gjalda þess. Ólafur segir ljóst að uppgreiðslugjaldið hafi verið ólögmætt.

Hverjar eru afleiðingarnar af dómum?

Ólafur veltir upp hvaða ályktanir megi draga af nýföllnum dómi og dregur þær saman í þrennt:

„1. Að Íbúðalána­sjóði var óheim­ilt að krefja skuld­ara um upp­greiðslu­gjald þegar þeir greiddu upp lán sín.

2. Að Íbúðalána­sjóði var óheim­ilt að krefja skuld­ara um þókn­un þegar þeir borguðu inn á lán hjá sjóðnum.

3. Að þeir skuld­ar­ar sem ekki hafa getað end­ur­fjármagnað lán sem þeir tóku hjá Íbúðalána­sjóði (með nýj­um hag­stæðari lán­um frá öðrum lán­veit­end­um) vegna kröfu um upp­greiðslu­gjald geta nú kraf­ist þess að greiða þau lán upp án viðbót­ar­gjalds.“

Ólafur spyr hvort ráðherra málaflokksins muni sjá til þess að allir sem greitt hafi ólögmætt uppgreiðslugjald fái það endurgreitt. Telur hann einnig að ráðherra eigi að sjá til þess að ÍLS innheimti ekki uppgreiðslugjald í framtíðinni.

Innlendar Fréttir