Fór húsavillt og það kostaði hana lífið – DV

0
186

Tvítug stúlka, Kaylin Gillis, var skotin til bana á laugardaginn eftir að bíl, sem hún var farþegi í, var ekið upp ranga heimreið.

Kaylin var í bílnum ásamt þremur öðrum og voru þau á leiðinni heim til kunningja í upstate New York. Tóku þau ranga beygju og keyrðu óvart upp heimreið sem ekki lá að heimili kunningjans.

Leiddi þessi heimreið að öðru húsi og þar stóð húseigandinn á verönd sinni og skaut þaðan tveimur skotum að bílnum. Annað skotið hæfði bílinn og Kaylin með.

Umræddur maður er Kevin Monahan og er 65 ára. Hann hefur verið ákærður fyrir morð af annarri gráðu og var mál gegn honum þingfest á sunnudag.

„Þetta er mjög strjábýlt svæði með ómalbikuðum vegum og auðvelt er að villast. Þau höfðu aðeins ekið stuttan spöl upp þessa heimreið þegar þau áttuðu sig á mistökum sínum og ætluðu að snúa við, en þá steig Monahan út úr húsi sínu og skaut tveimur skotum,“ sagði fógetinn á svæðinu, Jeffrey Murphy og bætti við að lélegt símasamband væri á svæðinu.

Minnir á annað nýlegt mál Þessi frétt kemur í kjölfar þess að svartur unglingur í Kansas í Bandaríkunum var skotinn tvisvar af hvítum aðila eftir að unglingurinn fór húsavillt þegar hann ætlaði að sækja systkini sín. Skotmaðurinn í því tilviki er 84 ára og heitir Andrew Lester og skaut á hinn 16 ára Ralph Yarl um leið og hann opnaði útidyrahurðina, án þess að nokkur orðaskipti hefðu átt sér stað þeirra á milli.

Lester greindi lögreglu frá því að hann hafi talið að Ralph væri kominn til að ræna hann og hafi hann orði frá sér af ótta sökum aldurs og heilsu. Nú á hann yfir höfði sér ákæru í málinu, en þó er reiknað er með að inn í málið muni til álita koma löggjöf  sem kallast í daglegu tali „stattu á þínu“.

Þau lög fela í sér eins konar sjálfsvörn þar sem fólki er gert heimilt að vernda sig og sitt ef það sér fram á ógn eða valdbeitingu. Samkvæmt lögunum er í þessu samhengi heimilt að grípa til banvænnar sjálfsvarnar án þess að eiga á hættu ákæru fyrir morð. En lög af þessu tagi eru einnig kölluð „skjóta-fyrst, spyrja-síðar“ lög.

Lögin eru vægast sagt umdeild og eru talið að með þeim hafi kynþáttahyggja verið leidd í lög, þar sem þeir sem séu haldnir fordómum geti litið á húðlit sem nægilega ógn til að réttlæta ofsakennda sjálfsvörn á grundvelli laganna.

Ralph lifði þó af, læknum til nokkurrar furðu, en hann var skotinn bæði í höfuðið og handlegginn.

Engin ógn af hópnum Hins vegar voru bæði Kaylin og Monahan hvít. Samkvæmt fréttum af málinu steig enginn út úr bílnum á neinum tímapunkti og átti hópurinn í engum samskiptum við Monahan áður en hann skaut að þeim.

„Það stafaði klárlega enga ógn af nokkrum í bílnum. Það var engin ástæða fyrir Monahan að upplifa að sér væri ógnað,“ sagði Murphy.

Eftir að Monahan skaut að bílnum ók hópurinn burt og að nálægum bæ til að komast í símasamband. Þar hringdu þau í neyðarlínuna. Kaylin var úrskurðuð látin á vettvangi.

„Þetta er mjög sorglegt mál sem varðar ungmenni sem voru að leita að húsi kunningja en enduðu hjá heimili þessa manns sem ákvað að koma út með skotvopn og hleypa af,“ sagði Muprhy.

Þegar lögregla kom að Monahan var hann ekki samvinnuþýður og neitað að koma út úr húsi sínu til að ræða við lögreglu. Hann var svo hnepptur í varðhald nokkrum klukkustundum síðar eftir að sérsveitin kom á vettvang. Monahan hefur ekki gefið frá sér neina yfirlýsingu vegna málsins og var búinn að verða sér út um verjanda áður en hann kom út af heimili sínu.

„Hann hefur, í hrenskilni, ekki sýnt neina iðrun í þessu máli,“ sagði Murphy.

Þetta var ekki umsátur Verjandi Monahan hefur þó visað því á bug að það hafi átt sér stað umsátur lögreglu áður en Monahan kom út af heimili sínu. Hann hafi ekki haft nokkra hugmynd um að skot hans hefðu hæft einhvern og hafi hringt í lögmann sinn til að tilkynna honum að það væru fjórir lögreglumenn á heimreið hans og hann hefði ekki hugmynd um hvers vegna.

Lögmaður hans hafi svo haft samband við lögreglu og fengið að vita af láti Kaylin og í kjölfarið hafi skjólstæðingur hans samþykkt að fara með lögreglunni.

„Þetta var ekki umsátur. Þetta var bara það að hvorki skjólstæðingur minn né ég vissum hvað væri í gangi varðandi meintar sakir í málinu.“

Bæði þessi mál sem rakin voru hér að ofan hafa kynt undir umræðunni um „stattu-á-þínu“ löggjöf og hvort tilvist slíkra laga ýti undir það að fólk bregðist of harkalega við aðstæðum og grípi til skotvopna í þeirri trú að notkun þeirra sé réttlætanleg.

Heimild: CNN