Foreldrar Madeleine McCann senda frá sér hjartnæma yfirlýsingu – DV

0
151

Foreldrar Madeleine McCann, litlu stúlkunnar sem hvarf árið 2007 í Portúgal þar sem hún var í fríi með fjölskyldu sinni, hafa sent frá sér hjartnæma yfirlýsingu í tilefni af því að nú eru 16 ár síðan dóttir þeirra hvarf. Hún væri í dag 19 ára gömul, ef hún er á lífi.

Madeleine, eða Maddie eins og hún var kölluð, hvarf úr íbúð sem fjölskylda hennar hafði á leigu í Praia de Luz á Portúgal í maí árið 2007.  Hún var þriggja ára gömul og hefur ekkert spurst til hennar síðan.

Foreldrar hennar segja að þau eigi erfitt með að koma tilfinningum sínum í orð, en yfirlýsinguna birtu þau á opinbera Instagram síðu sem helguð er leitinni að Maddie.

Þrátt fyrir að vendingar hafi átt sér stað í rannsókn málsins undanfarið, meðal annars hefur maður að nafni Christian B verið nefndur mögulegur sakborningur, þá hefur enginn ákæra verið gefin út og ekki er víst að svo muni gerast. Nýlega steig fram pólsk kona sem taldi sig vera Maddie, en það hefur nú verið afsannað. Foreldrar Maddie segja að þau bíði enn eftir nýjum vísbendingum.

„Enn saknað … og enn mikill söknuður. Það er erfitt að finna réttu orðin til að tjá hvernig okkur líður“

Þess í stað deildu þau ljóðinu The Contradiciton eftir skáldið Clare Pollard, en í því er fjallað um söknuð. Foreldrar Maddie þakka fyrir áframhaldandi stuðning við fjölskylduna, hann skipti virkilega máli.

Sjá einnig: Sextán ára saga leitarinnar að Madeleine McCann