3 C
Grindavik
28. nóvember, 2020

Fórnarlamb heimilisofbeldis þarf ekki að mæta kvalara sínum í réttarsal

Skyldulesning

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Austurlands um að maður sem ákærður er fyrir gróf brot í nánu sambandi, alvarlegar hótanir, kynferðisbrot, húsbrot, brot gegn nálgunarbanni og að hafa endurtekið og á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð brotaþola, eiginkonu sinnar, víki úr réttarsal er eiginkonan ber vitni í málinu.

Réttargæslumaður konunnar mun hafa lagt upp með slíka kröfu strax í upphafi málsins og vísaði hann meðal annars til þess að konan óttaðist eiginmann sinn og hefði hún meðal annars að undanförnu dvalið erlendis af ótta við manninn.

Kemur fram í gögnum málsins að ákærði hafi í tvígang verið vísað af heimili sínu á síðustu mánuðum ársins 2019. Þá var hann úrskurðaður í nálgunarbann og bannað að nálgast og setja sig í samband við eiginkonu sína frá mars til september þessa árs, og svo aftur í 12 mánuði frá september. Sá úrskurður er því enn í gildi, þ.e. maðurinn er enn í nálgunarbanni.

Vísar dómurinn í vottorð læknis konunnar sem segir konuna glíma við kvíða, þunglyndi og áfallastreituröskun af völdum „afbrigðilegu sambandi“ við manninn. Álit læknisins er „að þau hjón eigi ekki að vera í réttarsal á sama tíma. Slíkt gæti haft mjög alvarleg áhrif á andlega líðan [brotaþola].“

Ofangreind rök nægðu héraðsdómara og úrskurðaði hann sem fyrr sagði að ákærði, eiginmaður konunnar, skyldi víkja úr réttarsal á meðan hún bæri vitni gegn honum. Staðfesti Landsréttur þann úrskurð á þriðjudaginn.

Innlendar Fréttir