forsetinn-nam-netagerdarlistina

Forsetinn nam netagerðarlistina

200 mílur | Morgunblaðið | 28.3.2022 | 13:12

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fékk tækifæri til að læra rétt og góð handtök í netagerð og undir leiðsögn Kristins Freys Kristinssonar, skipstjórnarnema. mbl.is/Sigurður Bogi

Vel var mætt á skrúfudaginn; kynningardagskrá nemenda í véltækni- og skipstjórnarskóla Tækniskólans sem var nú á laugardaginn. Þar gafst fólki kostur á að kynna sér hvaða möguleikar felast í fjölbreyttum störfum til sjós og lands sem nám í skólanum opnar tækifæri til.

Í véltækni eru nú um 250 nemendur og um 200 manns nema skipstjórn, en margir þeirra eru reyndar í fjarnámi jafnhliða störfum sínum á hafi úti. Skrúfudagurinn hefur verið haldinn í áratugi.

Meðal þeirra sem mættu á skrúfudaginn að þessu sinni var Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. Í ávarpi sínu gerði hann að umtalsefni mikilvægi fjölbreyttrar menntunar og rifjaði jafnframt upp stuttan en áhugaverðan feril sinn sem sjómaður á fraktara sumarpart endur fyrir löngu. Hann fékk einnig tækifæri til að læra rétt og góð handtök í netagerð og þar var til leiðsagnar Kristinn Freyr Kristinsson skipstjórnarnemi.


Posted

in

,

by

Tags: