8 C
Grindavik
22. apríl, 2021

Frá Eldey til Eyjafjarðar

Skyldulesning

Eldey. Suðvestan við Reykjanes er mesta súluvarp landsins.

Eldey. Suðvestan við Reykjanes er mesta súluvarp landsins.

Ljósmynd/Páll Stefánsson

Félagarnir Gunnsteinn Ólafsson og Páll Stefánsson halda áfram að kynna landið í máli og myndum á skemmtilegan og fróðlegan hátt, nú með bókinni Hjarta Íslands – Frá Eldey til Eyjafjarðar, sem Veröld gefur út. Fyrir tveimur árum sendu þeir frá sér bók um hálendið og á næsta ári loka þeir hringnum með þriðju bókinni.

Gunnsteinn er reyndur leiðsögumaður og tónlistarmaður og nýtur þess í bókinni, segir frá landslaginu og sögunni sem því tengist, lífríkinu og þjóðtrúnni að ónefndri menningunni. Samspili manns og náttúru. „Ég reyni að tína það til sem skiptir mestu máli,“ segir hann og vísar meðal annars til þess að hann hafi lagt sig eftir því að segja frá þjóðlagatónlist á umræddum svæðum, tónskáldum, ljóðskáldum, tónlistarmönnum og rithöfundum.

Páll segist hafa lagt áherslu á að mynda landið eins fallegt og það er á öllum árstímum. „Bækurnar eru hugsaðar fyrir allan almenning og myndirnar lýsa því sem fyrir augu ber á almennan hátt.“

Í harmóníu við náttúruna

Gunnsteinn segist hafa aflað víða fanga og gætt þess að koma efninu til skila á eins kjarnyrtan hátt og hann gat í bók sem hann vildi lesa sjálfur. „Ég ætlaði að skrifa spennubók, að það yrði aldrei dauður punktur, alltaf eitthvað nýtt og fróðlegt, og vildi að hún yrði við alþýðu hæfi,“ útskýrir hann.

Höfundarnir Gunnsteinn Ólafsson og Páll Stefánsson.

Mikil vinna liggur að baki og Gunnsteinn segir að hann hafi til dæmis verið þrjá mánuði að lesa sér til og skrifa um Hornstrandir og Jökulfirði. „Að skrifa um lífið á Hornströndum er eins og að kynnast stórbrotinni menningu sem leið undir lok,“ upplýsir hann. „Á Ströndum segi ég einnig frá miskunnarlausum örlögum Höllu og Fjalla-Eyvindar þegar hún eignast barn í hellisskúta og tekst ekki að halda í því lífinu vegna vosbúðar og kulda. Hann leggur áherslu á að þessi afskekktu svæði eigi það öll sammerkt að þar lifði fólk og dó í harmóníu við náttúruna. „Þessi harmónía er nánast horfin nema hjá sérstökum stéttum eins og bændum og sjómönnum sem og öðrum sem haga störfum sínum eftir árstíðum.“

Talandi um sjómenn bendir Gunnsteinn á að í lok 19. aldar hafi menn siglt með farm frá Breiðafjarðareyjum til Bergen í Noregi og sýnt að Íslendingar gætu verið sjálfstæð þjóð með eigin útflutning. „Eins var merkilegt að komast að því að þar sem byggð er farin í eyði voru ríkustu jarðir á Íslandi, jarðir sem lágu best við samgöngum til sjós.“

Mikil stéttaskipting var lengi við lýði og Gunnsteinn segist alls staðar hafa rekist á hana. „Á Breiðafjarðareyjum voru konur ekki hærra skrifaðar en heimilisdýrin og börn urðu að vinna myrkranna á milli og höfðu engan tíma til þess að vera börn,“ segir hann. Engu að síður hafi ótrúlegustu menningarafrek verið unnin við þessar aðstæður og til dæmis hafi Júlíana Jónsdóttir, vinnukona í Breiðafjarðareyjum, skrifað ljóðabók fyrst íslenskra kvenna 1876.

Páll segist hafa farið hringinn nokkrum sinnum vegna bókarinnar, meðal annars tvisvar í mars og apríl, þegar kórónuveirufaraldurinn hafi verið í hámarki. „Það var skrýtið að keyra daglangt og mæta ekki bíl eða standa einn í fáránlega sérstakri birtu við Jökulsárlón. Þá var Palli einn í heiminum.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. desember. 

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir