Það bendir allt til þess að belgíski knattspyrnumaðurinn Divock Origi muni ganga til liðs við ítalska knattspyrnufélagið AC Milan í sumar.
Það er TEAMtalk sem greinir frá þessu en Origi er samningsbundinn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.
Framherjinn, sem er 26 ára gamall, hefur leikið með Liverpool frá árinu 2014 og á hann að baki 171 leik fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 40 mörk.
Samningur hans í Bítlaborginni rennur út í sumar og bendir allt til þess að hann muni yfirgefa enska félagið á frjálsri sölu.
Hann hefur einungis komið við sögu í fimm leikjum með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað tvö mörk.