3 C
Grindavik
4. mars, 2021

Framhaldsskólar geta hafið staðnám

Skyldulesning

Mynd úr safni af ungum framhaldsskólanemum á Covid-tímum.

Mynd úr safni af ungum framhaldsskólanemum á Covid-tímum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilbrigðisráðherra hefur gefið út nýja reglugerð um skólastarf sem taka mun gildi frá og með 1. janúar og gilda til 28. febrúar nk. Reglugerðin tekur mið af minnisblaði sóttvarnalæknis en þar kemur fram að tillögur hans séu settar fram með þeim fyrirvara að ástand faraldursins verði ekki verra við upphaf nýrrar annar en nú er.

Í samhengi við litaflokkað viðvörunarkerfi fyrir skólastarf er ráðgert að skólastarf hefjist á appelsínugulum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Mestu breytingarnar sem felast í nýrri reglugerð snerta skólastarf í framhaldsskólum en með henni er opnað á að staðnám í framhaldsskólum geti farið fram að nýju.

Heimilt verður að hafa samtals 30 nemendur og starfsmenn saman í rými í framhaldsskólum. Blöndun nemenda milli hópa er heimil. Sé ekki unnt að tryggja 2 metra reglu ber nemendum og starfsfólki að nota grímu. Sömu reglur gilda um lýðskóla, ungmennahús og framhaldsfræðslu.

„Þetta er frábært skref og ég fagna því að framhaldsskólanemar muni geta snúið aftur í skólabyggingar og stundað sitt nám í meiri nálægð og samfélagi hvert við annað. Ég treysti skólasamfélaginu til þess að vinna innan þessarar tilslökunar – sem er kærkomin á öllum skólastigum. Við munum sem fyrr gæta vel að sóttvörnum og hafa allan vara á; þetta er samvinnuverkefni okkar allra og við fylgjumst vitanlega vel með stöðunni og þróun mála,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra er bent á að á þessum tímapunkti hafi náðst sæmilega góð tök á faraldrinum en þó séu vísbendingar síðustu daga um að hann gæti verið á uppleið. Ljóst sé að staða faraldursins kunni að verða önnur við upphaf nýs skólatímabils í janúar sem geti kallað á endurskoðun á reglugerðinni. Þótt gildistími reglugerðarinnar sé frá 1. janúar – 28. febrúar er sá fyrirvari settur að breytingar kunni að verða gerðar ef þörf krefur. 

Helstu breytingar:

Leikskólar: Heimilt verður að hafa 20 starfsmenn saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Ef ekki er unnt að tryggja 2 metra reglu innandyra ber þeim að nota grímur.

Grunnskólar:  Heimilt verður að hafa 20 starfsmenn saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Ef ekki er unnt að tryggja 2 metra reglu innandyra ber þeim að nota grímur. Í sameiginlegum rýmum, m.a. mötuneytum verður heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun, að því gefnu að starfsfólk noti grímur. Þessar reglur gilda einnig um frístundaheimili, skipulagt íþrótta- æskulýðs- og tómstundastarf og um störf í félagsmiðstöðvum.

Framhaldsskólar: Heimilt verður að hafa samtals 30 nemendur og starfsmenn saman í rými. Blöndun nemenda milli hópa er heimil. Sé ekki unnt að tryggja 2 metra reglu ber nemendum og starfsfólki að nota grímu. Sömu reglur gilda um lýðskóla, ungmennahús og framhaldsfræðslu.

Háskólar: Heimilt verður að hafa samtals 50 nemendur og starfsmenn í hverju kennslu- eða lesrými. Blöndun milli nemendahópa er óheimil en starfsfólki er heimilt að fara á milli hópa. Sé ekki unnt að tryggja 2 metra reglu ber nemendum og starfsfólki að nota grímu.

Tónlistarkennsla: Öll tónlistarkennsla barna á leik- og grunnskólaaldri er heimil samkvæmt sömu takmörkunum og gilda á hvoru skólastigi um sig. Um tónlistarkennslu eldri nemenda gilda sömu takmarkanir og í framhaldsskólum.

Innlendar Fréttir