9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Framkvæma köfun – frost á frónni – losna við hærra hitastig

Skyldulesning

Orðlof

Íþrótt

Íþrótt er samsett orð þó lítið sé. Seinni hluti orðsins er líklega skyldur orðinu þróttur ’afl, þol; hreysti’, en hinsvegar er fyrri hlutinn, ’í-’, nokkur ráðgáta. 

Oft er talið að það sé sprottið af orðunum og íð (sbr. iðn). Upphaflega hefði orðið þá átt að vera ’íð-þrótt’ og gæti merkt: ’iðn stunduð af þrótti og elju’, enda hafði orðið mun víðari merkingu áður fyrr og var notað um ýmiss konar athafnir sem kröfðust ákveðinnar leikni, t.d. hannyrðir og kveðskap.

Orðaborgarar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… þar sem ís­inn á vatn­inu er orðinn of þykk­ur til að hægt sé að fram­kvæma þar köf­un …“

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Þetta er slæmt orðalag. Í fyrirsögn er sögnin að kafa notuð. Hvað er að því að nota hana aftur? 

Í fréttinni segir:

All­ir viðbragðsaðilar eru nú til­bún­ir á vett­vangi …

Eitt vitlausasta orð á íslenskri tungu er „viðbragðsaðili“. Í fréttinni er greinilega átt við björgunarsveitir, lögreglu, sjúkralið, Landhelgisgæslu, nokkur fyrirtæki jafnvel fleiri. Ekkert að því að nota þessi heiti en forðast að nota „aðili“ eða orð sem enda á því.

Hvers vegna? Fyrst og fremst vegna þess að orðið er ekki hnitmiðað, mörg önnur duga ágætlega. Sömu rök eiga við orðið „viðbragðsaðili“.

Hvernig litist lesandanum á ef blaðamaður væri kallaður „fjölmiðlaaðili“, skrifstofumaður „skrifstofuaðili“, börn í fjölskyldu „fjölskylduaðili“ og svo framvegis.

Í fréttinni segir:

Að sögn Odds var þetta viðbúin staða …

Í íslenskri þýðingu segir maðurinn að fyrirfram hafi verið búist við þessum aðstæðum.

Lýsingarorðið „viðbúið“ er tískuorð sem allir nota sem vilja vera gáfulegir. Líklega er ekkert að því nema ofnotkunin. 

Loks segir í fréttinni:

Sam­kvæmt veður­spánni eigi þó að blása í dag …

Og hver á að blása? Látum það vera að leikskólabörn taki svona til orða. Fólk sem er vel að sér og hefur tilfinningu fyrir íslensku máli segir að síðar í dag muni hvessa. Síðar kann svo að lægja (ekki segja „vindur minnkar“).

Margt fleira er að orðalagi í þessari frétt. Fréttastjóri hefði átt að biðja „fjölmiðlaaðilann“ að endurskrifa hana.

Tillaga: … þar sem ís­inn á vatn­inu er orðinn of þykk­ur til að hægt sé að kafa …

2.

„Nú er frost á frónni og í morgun fraus í æðum blóð við það eitt að skoða mælingar Veðurstofunnar.“

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Maður verður hreinlega orðlaus.

Frón er Ísland og skrifað með stórum upphafsstaf. Á vefnum málið.is er orðið sagt merkja land eða jörð, einkum í skáldamáli.

Fró merkir hins vegar allt annað, til dæmis lífsfylling, huggun, gleði, hvíld og svo framvegis. Kvenkynsorðið fró er í þágufalli með greini frónni

Blaðamaðurinn virðist vera annað hvort fljótfær eða … Þar að auki brýtur hann eina mikilvægustu reglu í blaðamennsku sem er á þá leið og koma aðalefni fréttar fram í upphafi hennar. Fréttin er samhengislaus og illa skrifuð.

Önnur regla er sú að blanda ekki eigin tilfinningum í fréttaskrif. 

Þriðja reglan er að skrifa á almennu máli, ekki nota frasa, málshætti eða orðtök sem skrifarinn hefur ekki fullvissað sig fyrirfram um að fara rétt með.

Fréttin er Ríkisútvarpinu ekki til sóma. Hún var birt klukkan 10:35 og fékk að standa í tvær og hálfa klukkustund án leiðréttingar. Þá var Fróni bætt við og ekkert annað lagað.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Hæstvirtur forseti hefur verið spurður hversu alvarlegum augum hann lítur á þetta mál a𠅓

Frétt á dv.is.                                      

Athugasemd: Fréttin fjallar um fyrirspurn þingmanns til forseta Alþingis. Tillagan hér fyrir neðan er ekki góð en mun skárri.

Spurningin vísar til þess hvort forsetinn takið málið alvarlega. Í tísku er að segja „mikið alvarlega“, „rosalega mikið alvarlega“. Fyrir sumum er ekki nóg að vera alvarlegur.

Þá er það spurningin hvort hægt sé að stigbreyta orðalaginu:

Hversu alvarlegum augum

Hversu alvarlegri augum

Hversu alvarlegustu augum

Já, þetta er málfræðilega rétt en tóm vitleysa engu að síður. Eða er það þannig í daglegu lífi þingmanns að einn líti mál „alvarlegum augum“ meðan annar horfi á þau með „alvaralegri augum“? Venjan er yfirleitt sú að taki menn mál alvarlega þá þarf hvorki að margfalda eða stigbreyta

Orðalagið er svo fáránlegt og jafnvel hlægilegt að ósjálfrátt er litið á það með „broslegustu augum“, að minnsta kosti með hægra auganu.

Tillaga: Hæstvirtur forseti hefur verið spurður hversu alvarlegt hann telji málið vera …

4.

„Nái kvikugangur að brjóta sér leið til yfirborðs verður eldgos.“

Frétt á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 11.2.22.                                     

Athugasemd: Þetta er djúp speki rétt eins og flest það sem telst sjálfsagt. Sé vatn hitað nógu lengi á miklum straumi mun það sjóða. Sé tekið ólæsta hurð munu dyrnar opnast. Sá sem stekkur í sjóinn mun verða blautur. Bílar eru stöðvaðir við rautt ljós. Stjórnmálamaður sem hittir fólk mun tala. Fótbolti mun um síðir falla til jarðar sé honum sparkað í loft upp.

Svona má halda áfram bullinu. Aftur á móti er greinin ágæt enda blaðamaðurinn vel máli farinn og góður í sínu fagi. Hins vegar er erfitt að still sig þegar maður rekst á svona gullkorn sem Danir nefna „selfölgeligheder“. Á íslensku þarf ekki að nota eitt orð yfir dönskuna, í lagi er að nota fleiri og segja það sem er sjálfsagt.

TillagaEngin tillaga.

5.

„Við þurfum að losna við ísinn og hærra hita­stig.“

Frétt á fréttablaðið.is.                                      

Athugasemd: Hér hefði blaðamaðurinn átt að lagfæra orð viðmælanda síns því þau eru ekki rökrétt. Haft er eftir viðmælandanum að nauðsynlegt sé að losna við ís og losna við hátt hitastig. Það getur hins vegar ekki verið. 

Líklegast á maðurinn við það sem segir í tillögunni.

Tillaga: Við þurfum að losna við ísinn og fá hærri lofthita.


Fyrri fréttGræn iðnbylting
Næsta fréttGömul steypa
spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir