6.4 C
Grindavik
22. september, 2021

Framsýnin lifi!

Skyldulesning

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er áhugamaður um samgöngur og þ.á.m. veggjöld sem hann telur að geti orðið til mikilla framfara, en þær hugmyndir eru ekki til umræðu í frétt Morgunblaðsins í dag (26.11.2020).

Þar er hins vegar sagt frá því að Jón þingmaður sé búinn að leggja fram tillögu á Alþingi um orkuskipti í flugi, tillögu sem gengur út á að Íslendingar taki forystu í rafvæðingu flugvéla, í innanlandsflugi, vel að merkja, því svo stórhuga eru íslenskir þingmenn ekki, að þeir ætli sér að breyta flygildum allra annarra landa með einni handarsveiflu.

Það er innanlandsflugið sem er undir og í tillögunni felst að ,,að samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, setji á fót starfshóp til að móta stefnu og aðgerðaáætlun um orku­skipti í flugi á Íslandi.“

Ekki er kunnugt um að farþegaflugvélar séu hannaðar og smíðaðar hérlendis, en hver veit? Það er svo ótal margt sem getur farið framhjá okkur sem ekki sitjum á Alþingi. En í fréttinni segir að ,,Starfshópurinn á að móta tillögur um hvernig Ísland geti orðið í fremstu röð í orkuskiptum í flugi og hvernig styðja megi við nýsköpun á því sviði, en jafnframt kanni hann fýsileika landsins til slíkra orkuskipta með tilliti til veðurfars, innviða og þátttöku í alþjóðlegri þróun á þessu sviði með það að markmiði að hafið verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030.“

Við höfum níu ár til að hrinda málinu í framkvæmd!

Fyrir nokkrum árum ræddi núverandi samgönguráðherra í útvarpsviðtali um sama mál og var á svipuðum nótum.

Þeir virðast ná vel saman Jón og Sigurður; báðir vilja rafrellur í flugið og báðir vilja auknar skattheimtur af samgöngum sem fram fara á vegum landsins.

Svo eru þeir samherjar í ríkisstjórn og ekki spillir það fyrir.

Við erum vafalaust mörg sem munum eftir því að flugvélasmíði er afar skammt komin hérlendis og hönnun flugvéla trúlega enn skemmra, en það er alla vega gott til þess að vita að á Alþingi þjóðarinnar sitja a.m.k. tveir menn sem sjá vítt yfir sviðið, eru stórhuga og ætla þjóð sinni forystu á ólíklegustu sviðum vísinda og tækni.


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir