4.3 C
Grindavik
25. september, 2021

Fraunhofer og samkeppnishæf framleiðsla

Skyldulesning

Það er einkenni stjórnarhátta núverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa nefndir eða kaupa skýrslugerð af ráðgjafarfyrirtækjum, iðulega útlendum, þegar komast þarf til botns í málum.  Við þetta setur ráðuneytið nokkuð niður, því að það ætti að vera í stakkinn búið til að leiða slíka vinnu hérlendis og kalla til aðstoðar við sig sérfræðinga eftir þörfum. 13. nóvember 2020 birti ráðuneytið skýrslu, sem var ekki af lakara taginu, enda verktakinn rannsóknarfyrirtækið Fraunhofer Institut í Karlsruhe.  Væri fróðlegt að vita, hvað afurðin, skýrsla um samkeppnishæfni orkukræfs iðnaðar á Íslandi m.t.t. raforkukostnaðar, kostaði íslenzka skattgreiðendur. Mun þessi skýrsla borga sig ?

Í skýrslunni er mikill fróðleikur, en hún er með böggum hildar frá verkkaupanum.  Hún fjallar ekki um heildarsamkeppnishæfni fyrirtækjanna orkukræfu, og hversu hár raforkukostnaður hvers þeirra eða hvers geira má vera, að öðrum liðum óbreyttum m.v. ákveðna tímasetningu, til að fyrirtækin skili lágmarks arðsemi að mati ráðgjafans. Sú arðsemi er við núverandi aðstæður sjálfsagt talsvert lægri en 7,5 %/ár, sem ríkissjóður krefst af Landsvirkjun. Fyrir vikið er óvíst, að skýrslan komi að miklum notum, og fyrstu ummæli iðnaðarráðherra um niðurstöðu skýrslunnar lofa ekki góðu í þeim efnum.

Til að setja stóriðjuna í sögulegt samhengi er nytsamlegt að skoða ritsmíð prófessors Jónasar Elíassonar í Morgunblaðinu 3. júní 2020: 

„Raforkuvinnsla á Íslandi: Aftur á byrjunarreit ?“

„Það, sem öðru fremur skipti sköpum, var sú ákvörðun að selja rafmagnið á rúmu kostnaðarverði gegn tryggum greiðslum í formi kaupskyldu. Þetta losaði Ísland nánast algerlega undan allri áhættu, en takmarkaði gróðann um leið. Í þessu skjóli hafa nánast engin vandamál komið upp, gagnrýnisraddir þagnað, nema hjá einstaka furðufuglum, og eignauppbygging í raforkukerfinu verið ótrúlega hröð. 

Þessi stefna á sér rætur í New Deal stefnu F.D. Roosevelt, forseta BNA. Svo hefur raforkuverðið hækkað með tímanum og endurnýjun samninga. Stóriðjan hefur reynzt ágætur viðskiptavinur og allir fordómar um stórfellda eitrun umhverfis og yfirvofandi fjárhagstap, jafnvel gjaldþrot, löngu dottnir fyrir borð.“

Viðreisnarstjórnin og Seðlabankastjóri þess tíma, dr Jóhannes Nordal, stóðu að og framkvæmdu þá stefnumörkun á 7. áratug 20. aldarinnar að semja við erlenda fjárfesta um stórsölu á rafmagni og fjármagna þannig uppbyggingu íslenzka raforkukerfisins til langrar framtíðar.  Þetta tókst vel, en það var erfitt að komast yfir þann háa þröskuld, að Ísland og Íslendingar voru þá óþekkt stærð varðandi afhendingu á raforku.  Íslendingar stóðust prófið, þótt oft reyndist mjög mótdrægt að útvega verksmiðjunum nægt rafmagn í erfiðu tíðarfari, þegar veikir innviðir brustu, t.d. Búrfellslína 1 á hafinu yfir Hvítá.   

Þegar traustið jókst með öflugri innviðum og meiri þekkingu, myndaðist svigrúm til að sækja á um hærra raforkuverð, og það var hækkað á 9. áratuginum. Á 10. áratuginum hækkaði það enn meir, og þá var jafnframt tekin upp verðtenging við nokkra álmarkaði, sem gerði tvennt fyrir íslenzku orkubirgjana.  Hún tryggði þeim lágmarksverð til að standa straum af fjárfestingum sínum í mögrum árum, og hún tryggði þeim hlutdeild í hagnaði álfyrirtækjanna í góðæri.  

Það ríkti góð sátt um þetta fyrirkomulag til 2010, þegar nýir valdhafar komu að Landsvirkjun. Því var ranglega haldið fram, að álverðstenging við raforkuverð skapaði orkubirgjunum of mikla áhættu.  Því var þveröfugt farið.  Hún skóp stöðugleika. Hinir nýju stjórnendur Landsvirkjunar höfðu ekkert umboð til að kollvarpa farsælli stefnu, sem Alþingi hafði mótað og aldrei breytt.  Nú er þessi markaður í uppnámi og gæti lent aftur á byrjunarreit, eins og prófessor Jónas Elíasson getur um. 

„Aðrir [en Kínverjar – innsk. BJo] reyna að þrauka á lágmarksgangi.  Þessi þróun er sýnileg hjá ISAL, sem var í viðkvæmri stöðu fyrir [COVID-19]. Þeir eru með nýjasta raforkusamninginn [svo ?], og samkvæmt honum hefur orkuverð til þeirra hækkað talsvert, en verðmæti framleiðslunnar minnkað.  Þeir íhuga stöðvun, en eiga ekki hægt um vik, því [að] stærsti hlutinn af raforkusamninginum er háður kaupskyldu.“

Það hefur hvorki gengið né rekið í samningaviðræðum um endurskoðun raforkusamningsins á milli ISAL og Landsvirkjunar, sem gekk í gildi 2011 með afl- og orkuminnkun árið 2014, af því að Rio Tinto guggnaði á straumleiðaraeflingu í kerskálum 1 & 2, sem gert hefðu kleift að hækka kerstrauminn upp í um 200 kA. Norðurál samdi við Landsvirkjun um Nordpool-viðmiðun 2016, og árið 2019 kvað gerðardómur upp úrskurð um verð í orkusamningi Elkem Ísland og Landsvirkjunar. Nú býður Norðurál Landsvirkjun verðhækkun frá gildandi Nordpool og upp í meðalverð stóriðju, um 26 USD/MWh samkvæmt Fraunhofer, gegn langtímasamningi og álverðstengingu, en Landsvirkjun þursast við.  Samt hangir allt að mrdISK 15 fjárfesting á spýtunni.  Málið er svo alvarlegt, að fjármála- og efnahagsráðherra verður að grípa inn í þessa atburðarás, svo að útkoman verði vitleg.

Landsvirkjun hélt því fram í sumar (2020), að hún hefði lækkað verðið tímabundið til stórnotenda vegna Kófsins.  Það raungerðist ótrúlega seint í Straumsvík, en átti þó ásamt álverðshækkun þátt í viðsnúningi afkomunnar til hins betra í ágúst-október 2020, og vonandi verður seinni árshelmingurinn jákvæður fyrir reksturinn.  Fyrirtækið er í raun óseljanlegt með núverandi raforkusamning í gildi, og segir það alla söguna um, hversu samkeppnishæft raforkuverðið er. Með þessu áframhaldi mun eigandi ISAL segja raforkusamninginum upp við fyrsta tækifæri, sem þýðir líklega endanlega stöðvun 2024 samkvæmt ákvæðum orkusamnings.  Er skynsamlegt af ríkisfyrirtækinu að halda svona á spöðunum gagnvart hinum erlenda fjárfesti ? Vonandi sjá menn að sér fyrr en seinna.

„Stjórn Landsvirkjunar hefur lýst því yfir, að markmið þeirra sé að auka verðmæti auðlindarinnar.  Þetta er illframkvæmanlegt, nema hækka rafmagnið, en sú stefna er þvert á tilganginn með stofnun Landsvirkjunar, sem var að tryggja raforku á sem lægstu verði til almennings og iðnaðar.  Þetta hefur tekizt, þó að ekki hafi verið eins langt gengið og hjá FDR á sínum tíma, sem nánast gaf rafmagnið, en fékk í staðinn skattana af gríðarlegri iðnaðaruppbyggingu, sem reif Ameríku upp úr kreppu þriðja áratugarins á undraverðum hraða.“

Nú er Kófskreppa og atvinnulífið þarfnast sárlega innspýtingar.  Þetta skilja stjórnendur á hinum Norðurlöndunum og víða annars staðar. Í Noregi getur stóriðjan nú gert 5 ára samninga upp á 28 USD/MWh með flutningsgjaldi.  Það þýðir, að hér þarf verð frá virkjun að vera um 22 USD/MWh með viðmiðunarálverð LME um 1900 USD/MWh. Íslenzka ríkið verður að vera sjálfu sér samkvæmt um ráðstafanir til viðspyrnu í Kófinu og lækka ávöxtunarkröfu sína til Landsvirkjunar verulega, t.d. um helming. Vextir í Evrópu eru við 0, og almennt raforkuverð hefur hríðlækkað á hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu og víðast hvar annars staðar í ár, og stjórnvöld hafa niðurgreitt langtímasamninga.  Íslenzk stjórnvöld hins vegar hreyfa hvorki legg né lið, e.t.v. af ótta við að brjóta EES-samninginn, en aðrir hafa látið hann lönd og leið í Kófinu. Þetta heitir að vera kaþólskari en páfinn. 

Í lok greinar sinnar dró prófessor Jónas upp sviðsmyndina, sem leiðir af aðgerðarleysi íslenzkra stjórnvalda:

„Eftir situr þjóðin á reit nr 1 með um 20.000 manns án fyrirvinnu [í rústum íslenzks áliðnaðar – innsk. BJo].  Auðvitað er þetta helstefna.  Það þarf að reyna að koma eitthvað til móts við þennan iðnað, sem er búinn að þjóna landinu vel í 50 ár, gera einhverja marktæka tilraun til þess a.m.k. Núverandi ríkisstjórn er búin að taka fyrir það að leggja sæstreng til Evrópu, enda er raforkumarkaðurinn í Evrópu algerlega glataður fyrir Íslendinga, strengurinn alltof langur  og dýr og reglur uppboðsmarkaðar ESB, sem búið er að skylda okkur inn á (Nordpool), fjárhagslegt fen. 

Að sigla hingað með hráefni og vinna fyrir erlendan markað með umhverfisvænni náttúruorku er það, sem stefna ber að. Hér eftir sem hingað til.  Ef á að henda þeirri stefnu fyrir borð, verður að spyrja: hvað veldur ?“ 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, skrifaði pistil í Morgunblaðið 15.11.2020.  Það, sem þar kemur fram, bendir ekki til, að ný skýrsla Fraunhofer Institut að hennar beiðni hafi opnað augu hennar fyrir því, að raforkuverð á Íslandi er ósamkeppnishæft um þessar mundir og fyrirsjáanlega á næstu árum.  Að tala um, að meðaltalið sé samkeppnishæft, er orðhengilsháttur og engum til góðs, því að þetta meðalverð, um 26 USD/MWh, stendur engum kaupanda til boða.  Hvers vegna brettir ráðherrann ekki upp ermarnar og fer að moka flórinn ?  Hún ætti að hefjast handa í Landsvirkjunarfjósinu.  

Nú verður vitnað í téðan pistil ráðherrans:

„Samkeppnishæfni Íslands snýst um bætt lífskjör“:

„Meginniðurstaða úttektarinnar [Fraunhofer] er, að raforkukostnaður stóriðju á Íslandi skerðir almennt ekki samkeppnishæfni hennar gagnvart samanburðarlöndunum, sem voru Noregur, Kanada (Quebec) og Þýzkaland.  Fyrri löndin tvö eru stærstu álframleiðendur Vesturlanda og því ljóst, að við samanburðinn var ekki ráðizt á garðinn, þar sem hann er lægstur.“

Um þennan texta má segja, að þeir, sem ekki kunna að lesa skýrslur, ættu ekki að kaupa þær fyrir skattfé. Hvers vegna er gjörsamlega marklaust að draga þá ályktun af meðalorkuverði til stóriðju á Íslandi, að það sé samkeppnishæft ?  Það er  vegna þess, að það stendur engum til boða.  Hvers vegna gerir verkkaupinn, ráðherrann, það þá að aðalályktun sinni út frá þessari Fraunhofer-skýrslu, að Ísland sé samkeppnishæft á þessu sviði ?  Önnur skýring en sú að afsaka aðgerðaleysi iðnaðarráðherra á meðan Róm brennur er ekki í sjónmáli. Þurfum við á svona fulltrúum að halda á Alþingi ?  

Það hefur komið opinberlega fram hjá forstjóra Norðuráls, að fyrirtæki hans vill ráðast í allt að mrdISK 15 fjárfestingar í steypuskála sínum til að auka verðmæti framleiðslu sinnar með stangasteypu, en þarf til þess traustan raforkusamning a.m.k. til 15 ára og orkuverð í nánd við núverandi meðalverð Landsvirkjunar til orkukræfs iðnaðar.  Opinberar undirtektir Landsvirkjunar hafa ekki verið uppörvandi, og skýtur það skökku við orðagjálfur ráðherranna um nauðsyn nýsköpunar og nýrra fjárfestinga til að skapa efnahagslega viðspyrnu í Kófinu. Hér er ekki um umtalsvert aukna orkuþörf að ræða, og raforkuverð til fyrirtækisins mundi hækka verulega frá núverandi „Nordpool“ verði, ef af slíkum samningum yrði.  Í þessu ljósi er aðgerðarleysi ráðherranna gagnvart ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun algerlega óboðlegt. Það sjá menn, hvar í flokki sem þeir standa. 

„Engum dettur í hug að gera lítið úr þeim áskorunum, sem stóriðja á Vesturlöndum stendur frammi fyrir vegna aðstæðna á heimamörkuðum og samkeppni frá öðrum heimshlutum.  Við ættum ekki eingöngu að hafa áhyggjur af þeirri stöðu út frá efnahagslegu sjónarhorni, heldur líka umhverfislegu.  Ef stóriðja hér á landi flyttist til annarra landa og yrði þar knúin jarðefnaeldsneyti, yrði það skelfilegt bakslag fyrir baráttuna við loftslagsbreytingar; öll viðleitni okkar í orkuskiptum myndi blikna í samanburði við slíka þróun.“

Þetta er einkennilegur útúrdúr í ljósi grafalvarlegrar stöðu atvinnu- og efnahagsmála hérlendis.  Ef t.d. starfsemi allra álveranna flyttist utan, þangað sem jarðgas knýr raforkuvinnsluna, mundi heimslosun koltvíildis aukast um u.þ.b. 10 Mt/ár, sem er um tvöföld heildarlosun frá starfsemi á Íslandi (án flugs).  Það er um 0,03 % af heildarlosun frá starfsemi á jörðunni. Að kalla það „skelfilegt bakslag fyrir baráttuna við loftslagsbreytingar“ er anzi djúpt í árinni tekið og má telja til „upplýsingaóreiðu“ eða „fake news“. 

Uppbyggilegra en þetta þvaður úr ráðuneytinu var viðtal við Gunnar Guðlaugsson, forstjóra Norðuráls, o.fl. í Fréttablaðinu 14. nóvember 2020:

„Telja að úttekt gefi ranga mynd af stöðu raforkumarkaðar innanlands“. 

„Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, segir, að meðalverð til stóriðju, eins og það kemur fram í uppgjörum Landsvirkjunar, sé vissulega samkeppnishæft, og að skýrsla Fraunhofer staðfesti það:

„Hins vegar hefur ítrekað komið fram í skrifum forsvarsmanna Landsvirkjunar, að það verð er einfaldlega ekki í boði lengur við endurnýjun samninga; nú síðast hjá upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar í fjölmiðlum fyrir helgi.  Með þeirri verðstefnu er augljóst, að samkeppnishæfni íslenzkrar stóriðju til framtíðar er ógnað“, segir Gunnar.“

Þetta er rétt mat á stöðu orkumarkaðarins núna, og Fraunhofer-skýrslan var óþörf til að komast að þeirri niðurstöðu.  Endalausar skýrslupantanir iðnaðarráðherra eru tafaleikir og skálkaskjól fyrir úrræðalítinn ráðherra.  Þessi skortur á samkeppnishæfni Íslands er hins vegar óþarfur tilbúningur og afleiðing okurstefnu fáokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem er að rústa íslenzkum iðnaði og getur leitt til eyðileggingar Landsvirkjunar sjálfrar.

„Bjarni Már Gylfason, samskiptafulltrúi ISAL í Straumsvík, segir, að fyrirtækið muni ekki tjá sig um einstök atriði í skýrslu Fraunhofer.  „En almennt getum við sagt, að hún endurspeglar ekki þann veruleika, sem ISAL býr við.  Það er gott, að stjórnvöld beini sjónum að orkuverði, sem er lykilþáttur í samkeppnishæfni áliðnaðar.  ISAL og áliðnaðurinn á Íslandi vegur þungt í efnahagslífi þjóðarinnar, og það er mikilvægt, að ISAL geti orðið fjárhagslega sjálfbært og samkeppnishæft“, segir Bjarni.“

Verðið til ISAL um þessar mundir er um 40 % hærra en meðalverðið, sem Fraunhofar kveður samkeppnishæft.  Ofan á þetta bætist svo flutningsgjald til Landsnets.  Ef raforkuverð í Noregi lækkaði um allt að 67 % árið 2020 í Noregi, eins og Fraunhofer skrifar, er það um þessar mundir um 15 USD/MWh, sem er rúmlega 40 % af raforkuverðinu til ISAL án flutningsgjalds.  Það er óskiljanlegt, að íslenzk stjórnvöld skuli ekki grípa í taumana hér. 

Hér verður svo að taka með í reikninginn, að vegna lengri flutningaleiða verður stóriðja á Íslandi ekki samkeppnishæf við stóriðju í Noregi, nema raforkuverðið sé hér lægra.  Í fljótu bragði verður ekki séð, að Fraunhofer-skýrslan skipti sér af því, enda virðist ráðuneytið (verkkaupinn) ekki hafa ætlazt til, að öll sagan væri sögð.

Ekki tekur betra við, þegar kemur að gagnaverunum, enda hefur starfsemi þeirra á Íslandi dregizt saman vegna okurs á raforkumarkaði:

„“Það er ákveðið áhyggjuefni, að ráðuneytið skuli í tilkynningu sinni draga þá ályktun, að raforkuverð til gagnavera á Íslandi sé samkeppnishæft við t.d. Noreg, þegar það er hreinlega tekið fram í skýrslunni, að raforkuverð í Noregi sé töluvert lægra en á Íslandi, eins og allir þeir vita, sem eru að skoða raforkuverð á þessum tveimur mörkuðum“, segir Jóhann Þór Jónsson, formaður stjórnar gagnavera á Íslandi.  Jóhann nefnir einnig, að heimildavinnu skýrslunnar sé oft og tíðum ábótavant. Á einum stað í skýrslunni sé þannig talað um langtíma raforkuverð til norskra gagnavera í Noregi, en eina heimildin, sem þar er stuðzt við, er blaðagrein frá 2013.  „Stærsta áhyggjuefnið er hins vegar sú staðreynd, að orkunotkun íslenzkra gagnavera hefur dregizt saman um næstum því helming síðan 2018 og aðrir stórnotendur á landinu virðast stefna í svipaða átt. Það er ekki að gerast vegna þess, að raforkuverð er svo samkeppnishæft“, segir Jóhann.“

Þrátt fyrir fagurgala iðnaðarráðherra og forstjóra Landsvirkjunar verður ekki hjá því komizt að lýsa íslenzkum raforkumarkaði sem sviðinni jörð um þessar mundir.  Það versta er, að hvorki ráðuneytisfólk né stjórn Landsvirkjunar virðast átta sig á hættunni, sem við blasir, heldur telja við hæfi að fremja hundakúnstir og barbabrellur til að slá ryki í augu almennings. Það verður skammgóður vermir.

 ipu_dec_5-2011


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir