freista-thess-ad-koma-ollum-naudsynlegum-bunadi-ad-vatninu

Freista þess að koma öllum nauðsynlegum búnaði að vatninu

Til stendur að ryðja aðstöðuplan við Ölfusvatnsvík og slóða að planinu nú fyrir hádegi, til að koma búnaði á staðinn sem verður notaður til að heimta flugvélina sem fórst á fimmtudag og farþegana sem voru innanborðs upp úr Þingvallavatni. 

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu þarf allur búnaður að vera kominn á staðinn og uppsetningu að ljúka fyrir fimmtudag. Vonir standa til þess að á fimmtudag og föstudag geri betra veður til að ráðast í aðgerðir.

Ísröst sé farin að myndast með bökkum vatnsins og finna þurfi hentugan stað til „sjósetningar“ pramma sem notaðir verða á vatninu.

Á búnaðarlistanum eru meðal annars; aðstaða fyrir stjórnun og fjarskipti, aðstaða fyrir kafara fyrir búnað og utanumhald, aðstöðugámur fyrir fataskipti kafara, færanleg ljósavél í fullri stærð, tveir prammar, matur, vinnubúðir með starfsmannaaðstöðu, snyrtingar og snjóruðningstæki.

Þá er ótalinn sérstakur búnaður til köfunar.

„Auk daglegs stöðufundar með þeim sem að aðgerðinni koma var fundað með sérfræðingum í umhverfismálum og Brunavörnum Árnessýslu vegna hættu á mengun við aðgerðirnar. Þá var farið yfir sameiginlega rannsóknaráætlun lögreglu og RNSA á flakinu og nauðsynlegar aðgerðir tímasettar í ferlinu með stjórnendum kafara. Sveitarstjóra Grímsnes- og Grafningshrepps annarsvegar og þjóðgarðsverði hins vegar hefur verið gert viðvart um fyrirhugaðar aðgerðir og umfang þeirra.

Mögulegt er að umfang aðgerðanna leiði til tjóns á lággróðri og annarra ummerkja á bakka vatnisns einkum þar sem þungir prammar verða settir út. Lagfæringar á því þurfa að bíða vors en reynt verður af fremsta megni að komast hjá því að eftir verði nokkur ummerki um aðgerðirnar.

Lögregluvakt verður á vettvangi frá því uppsetning hefst og þar til aðgerðum er lokið,“ segir í tilkynningu lögreglu.


Posted

in

,

by

Tags: