Freyja kom Wilson til aðstoðar

0
77

Áhöfn varðskipisins Freyju kom dráttartaug fyrir í Wilson Skaw Ljósmynd/Aðsend

Norska flutningaskipið Wilson Skaw, sem hefur setið fast í Húnaflóa síðan á þriðjudag, losnaði á tíunda tímanum í morgun. Aukinn öldugangur á flóanum olli því að skipið sé komið á flot.

„Varðskipið Freyja kom dráttartaug yfir í flutningaskipið Wilson Skaw í morgun,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgigæslunnar, í samtali við mbl.is.

„Það var gert í kjölfar þess að vindur og ölduhæð fór vaxandi.“

Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að snemma í morgun hafi dráttartauginni verið komið fyrir á milli skipanna og á tíunda tímanum í morgun var komið los á skipið vegna öldugangs. 

Nú verið að gera tilraun til að koma Wilson á dýpra hafsvæði. Hann segir að varðskipið Freyja fikri sig nú hægt áfram með flutningaskipið en það eru nokkur blindsker á svæðinu, því sé mikilvægt að farið sé með ýtrustu gát. 

Áhöfn björgunarskips Slysavarnarfélagsins Landsbjargar er einnig á vettvangi.

Ekki farið eftir björgunaráætlun SMIT Frá því hefur verið greint að erlenda björgunarfélagið SMIT Salvage hefur unnið að björgunaráætlun. Þessar aðgerðir eru þó ekki á þeirra vegum, þar sem Landhelgisgæslan taldi það nauðsynlegt að gripið yrði inn í.

„Þegar Landhelgisgæslan metur það sem svo að grípa þurfi inn í ákveðnar aðstæður þá gerir hún það,“ segir Ásgeir og bætir við að í morgun var talin þörf á því. Hann segir að þetta sé allt gert í góðri samvinnu við útgerð skipsins.

Ljósmynd/Aðsend