0 C
Grindavik
25. nóvember, 2020

Fuglaflensa hefur greinst í sex löndum í Vestur-Evrópu

Skyldulesning

Hin bráðsmitandi og alvarlega fuglaflensa H5N8 hefur nú greinst í sex Vestur-Evrópulöndum. Þetta eru Danmörk, England, Belgía, Frakkland, Þýskaland og Holland. Í gær var staðfest að fuglaflensa hefði greinst í hænsnabúi í Danmörku og verða allar 25.000 hænurnar aflífaðar. Einnig greindist fuglaflensa í fuglum í dýraverslun á Korsíku. Búið er að aflífa alla fugla í versluninni.

Yfirvöld í mörgum Evrópuríkjum hafa hækkað viðbúnaðarstig vegna flensunnar. Í Frakklandi hefur öllum fuglaeigendum verið gert að setja net upp yfir búr þeirra og útisvæði til að koma í veg fyrir að fuglarnir komist í snertingu við villta fugla sem geta borið veiruna með sér.

Í gær fyrirskipuðu þýsk yfirvöld slátrun 16.100 kalkúna í norðurhluta landsins eftir að veiran fannst á sveitabæ.

Veiran hefur breiðst út í Vestur-Evrópu á undanförnum mánuðum eftir að hennar varð vart í Rússlandi og Kasakstan í sumar.

Innlendar Fréttir