fullyrdir-ad-hann-hafi-fundid-„100%-sonnun“-fyrir-lifi-a-mars-–-myndband

Fullyrðir að hann hafi fundið „100% sönnun“ fyrir lífi á Mars – Myndband

Líklegast hefur mannkynið hugleitt hvort líf sé að finna utan jarðarinnar frá þeim degi þegar það áttaði sig á að alheimurinn er ekki bara jörðin og sólin. Scott Waring er mikill áhugamaður um fljúgandi furðuhluti og geimverur og ef mark er takandi á honum þá þurfum við ekki lengur að ræða hvort líf sé að finna utan jarðarinnar. Hann segir engan vafa á því að líf sé að finna á Mars.

Waring er með YouTube-rásina „UFO Sightings Daily“ þar sem hann fjallar um það sem hann hefur mestan áhuga á, fljúgandi furðuhluti og eitt og annað þeim tengt. Ladbible skýrir frá þessu.

Waring skýrði nýlega frá því á rás sinni að hann hefði gert magnaða uppgötvun og birti mynd frá Marsbíl NASA því til sönnunar. Hann segir hana vera „100% sönnun“ þess að það sé líf á Mars.

Hann telur sig sjá „geimveru“ (þá væntanlega Marsbúa) sem fylgist með Marsbílnum. Og ekki nóg með það, því Marsbúinn líkist manneskju.

Þessa niðurstöðu byggir Waring á „greiningu“ á myndinni, sem er af yfirborði Mars, og bendir á „30 cm háa“ veru. „Það sem er þarna, og ég sver við almættið, að þetta líkist manneskju sem liggur á strönd. Sjáið þið persónuna sem liggur á annarri öxlinni?“ segir hann í myndbandinu. Síðan bendir hann á handlegg og háls „persónunnar“ og bætir við að hún virðist vera rauðhærð.

Hann segir einnig að fótspor liggi yfir steininn: „Þetta er ótrúlegt, er það ekki? Þetta ætti ekki að vera hægt en samt sjáum við þetta núna,“ segir hann.

En lesendur verða að dæma um þetta sjálfir.


Posted

in

,

by

Tags: