Fundu elstu vetrarbrautirnar – DV

0
75

James Webb geimsjónaukinn er líklega öflugasta verkfæri stjörnufræðinga þessa dagana við rannsóknir á alheiminum. Frá því að honum var skotið á loft hafa vísindamenn gert hverja uppgötvunina á fætur annarri með aðstoð hans. Ein af nýjustu uppgötvununum er að hann myndaði fjórar fjarlægustu vetrarbrautirnar sem hafa fundist til þessa. Ein þeirra er talin hafa myndast aðeins 320 milljónum ára eftir Miklahvell en þá var alheimurinn enn að slíta barnsskónum.

Phys.org skýrir frá þessu og segir að í tveimur rannsóknum, sem hafa báðar verið birtar í vísindaritinu Nature Astronomy, segi vísindamennirnir, sem gerðu rannsóknirnar, að þessi uppgötvun sé mjög mikilvæg.

Vetrarbrautirnar eru taldar hafa myndast 300 til 500 milljónum árum eftir Miklahvell.

Pieter van Dokkum, stjörnufræðingur við Yale háskólann, segir í Nature Astronomy að þessi síðast uppgötvun James Webb geimsjónaukans sé ótrúlega merkileg. „Ytri mörk alheimsins færast til næstum mánaðarlega. Nú eru aðeins 300 milljónir ára af sögu alheimsins sem enn á eftir að rannsaka, tíminn á milli þessara vetrarbrauta og Miklahvells,“ skrifar hann.