8.4 C
Grindavik
14. júní, 2021

Fundu fjölda hnífa og skotvopna á heimili manns í Reykjavík

Skyldulesning

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann í miðbæ Reykjavíkur um klukkan hálfátta í gærkvöldi. Er maðurinn grunaður um líkamsárás, eignaspjöll, fjársvik, brot á lyfjalögum og vörslu fíkniefna.

Að því er segir í dagbók lögreglu réðst maðurinn á leigubílstjóra og braut ljós á leigubíl hans þegar hann átti að greiða fyrri ferðina.

Var maðurinn handtekinn í húsi þar sem hann hafði farið inn í. Hann var í annarlegu ástandi og var færður í fangageymslu.

Skömmu fyrir klukkan sjö í gærkvöldi var maður handtekinn í hverfi 108. Hann er grunaður um þjófnað, brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna.

Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi heimilað leit á heimili sínu og þar hafi fjöldi hnífa og skotvopna fundist. Vopn og fíkniefni voru haldlögð. Var maðurinn vistaður í fangageymslu.

Rétt fyrir tíu í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um að flugeld hefði verið kastað inn um stofuglugga í Grafarvogi sem sprakk á stofugólfinu. Að því er segir í dagbók lögreglu urðu litlar skemmdir; mest sót sem húsráðendur ætluðu að þrífa.

Laust eftir klukkan tíu í gærkvöldi var lögreglu svo tilkynnt um þjófnað í Breiðholti. Ungur maður í annarlegu ástandi var handtekinn grunaður um að reyna að stela vespu.

Í dagbók lögreglu kemur fram að maðurinn hafi ekki farið að fyrirmælum lögreglu. Hann hafi reynt að hlaupa af vettvangi og kastað bjórflösku að lögreglumönnunum. Maðurinn var færður í fangageymslu.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir