8.4 C
Grindavik
14. júní, 2021

Fundu fjölda hnífa og skotvopna – Kastaði flösku að lögreglumönnum

Skyldulesning

Á sjöunda tímanum í gær var maður handtekinn í Bústaðahverfi en hann er grunaður um þjófnað, brot á vopnalögum og fíkniefnabrot. Á heimili hans fannst fjöldi hnífa og skotvopna. Hald var lagt á vopnin og meint fíkniefni. Maðurinn var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Á ellefta tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað í Breiðholti. Þar var ungur maður í annarlegu ástandi grunaður um að reyna að stela vespu. Hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu og reyndi að hlaupast á brott frá lögreglumönnum. Hann kastaði einnig bjórflösku að þeim. Laganna verðir höfðu hendur í hári hans og handtóku og er hann nú í fangageymslu.

Á áttunda tímanum í gærkvöldi var maður handtekinn í miðborginni, grunaður um líkamsárás, eignaspjöll, fjársvik, brot á lyfjalögum og vörslu fíkniefna. Hann hafði ráðist á leigubílstjóra og brotið ljós á bifreið hans þegar kom að því að greiða áfallið aksturgjald. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.

Á sjötta tímanum í gær var bifreið ekið á grjótmön í Hafnarfirði. Vitni sáu konu aka bifreiðinni og síðan yfirgefa vettvang. Hún var handtekin skömmu síðar, grunuð um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Hún kvartaði yfir eymslum í hálsi og baki var farið með hana til aðhlynningar á Bráðadeild áður en hún var flutt í fangageymslu.

Einn var handtekinn í miðborginni síðdegis í gær og vistaður í fangageymslu en hann var í mjög annarlegu ástandi.

Akstur eins ökumanns var stöðvaður síðdegis í gær þar sem viðkomandi reyndist hafa verið sviptur ökuréttindum. Áfengisþef lagði frá vitum hans en magn alkóhóls reyndist undir refsimörkum.

Kona var staðin að þjófnaði á vörum úr verslun í Hlíðahverfi á ellefta tímanum. Málið var afgreitt á vettvangi.

Á sjöunda tímanum í gær var tilkynnt um innbrot í geymslu í Kópavogi. Ekki er ljóst hverju var stolið.

Um klukkan eitt í nótt var rúða brotin í verslun í Garðabæ og úlpu stolið.

Um klukkan hálf fimm í nótt var maður staðinn að þjófnaði úr verslun í Garðabæ. Málið var afgreitt á vettvangi.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir