Fundu leynigöng í 4.500 ára gömlum píramída – DV

0
126

Alþjóðlegur hópur vísindamanna hefur fundið níu metra langan gang í 4.500 ára gömlu píramída í Giza í Egyptalandi. Segja má að þetta sé leynigangur því hann leyndist nærri innganginum í stærsta píramídanum á svæðinu. Egypska fornminjaráðuneytið skýrði frá þessu nýlega.

Um níu metra langan gang er að ræða og er hann tveir metrar á breidd. Hann fannst meðal annars með hjálp innrauðrar tækni og þrívíddar-herma.

Í grein, sem var birt í vísindaritinu Nature, kemur fram að þessi uppgötvun geti veitt nýja vitneskju um hvernig píramídinn er byggður.

Mostafa Waziri, hjá fornminjaráðuneytinu, sagði að gangurinn hafi hugsanlega verið gerður til að koma að gagni við deilingu þyngdar í þessum gríðarstóra píramída. Hann sagði að fleiri mælingar verði gerðar í þeirri von að hægt verði að finna út úr hvað er undir ganginum eða við enda hans.

Zahi Hawass, fornleifafræðingur og fyrrum ráðherra fornminjamála, sagði að „miklar líkur séu á að gangurinn leyni einhverju“.

Píramídinn var reistur fyrir um 4.500 árum og er 146 metrar á hæð.