Fundu lík í ruslagámi við kirkju – DV

0
156

Fyrr í mánuðinum fannst lík Versey Spell, 75 ára, í ruslagámi við kirkju í Baltimore. Lögreglan segir að hún hafi verið myrt en hefur ekki skýrt frá dánarorsökinni. Spell hafði verið saknað síðan 19. október. Þá sagði lögreglan í eftirlýsingu að hún væri „viðkvæm fullorðin manneskja“ sem notast þyrfti við göngugrind eða staf til að komast ferða sinna.

Fjölskylda hennar telur að hún hafi horfið við dularfullar kringumstæður. Heimili hennar var í mikilli óreiðu og búið var að sparka kjallaradyrunum upp.

Lík hennar fannst 3. mars í gámi í rúmlega kílómetra fjarlægð frá þeim stað þar sem síðast sást til hennar á lífi. CBS News skýrir frá þessu.

Lögreglan hefur ekki veitt neinar upplýsingar um hugsanlega ástæðu morðsins eða hvort einhver liggi undir grun.