Íslenski boltinn

Vísir/Bára
Pepsi Max deildarlið Fylkis og Þróttar Reykjavíkur fengu liðsstyrk í dag. Sæunn Björnsdóttir gekk í raðir Fylkis og Guðrún Gyða Haralz í raðir Þróttar Reykjavíkur.
Sæunn Björnsdóttir hefur gengið til liðs við Fylki frá Haukum á láni út næsta tímabil. Hin 19 ára gamla Sæunn skrifaði undir samning við Hauka áður en hún var lánuð til Fylkis. Markmið Hauka er að spila á uppöldum leikmönnum í Pepsi Max deildinni þegar fram líða stundir og því var hún aðeins lánuð í Árbæinn.
Alls hefur Sæunn spilað 98 leiki fyrir Hauka og skorað 15 mörk í þeim. Þá hefur hún leikið tvo leiki fyrir U-19 ára landslið Íslands.
Guðrún Gyða Haralz hefur gengið í raðir Þróttar Reykjavíkur frá Breiðabliki. Guðrún Gyða er 21 árs gömul og hefur alls leikið 17 leiki í Pepsi Max-deildinni, þar af tvo á síðustu leiktíð. Alls á hún að baki 44 leiki í meistaraflokki og hefur skorað tíu mörk.
Þróttur er hennar fimmta lið þrátt fyrir ungan aldur en Guðrún Gyða hefur einnig leikið með KR, HK/Víking og Augnablik.
Guðrún Gyða hefur alls leikið 24 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim 14 mörk.