Fyndnar, furðulegar, hætturlegar en sumar algjör snilld – Hinar gleymdu uppfinningar sögunnar – DV

0
81

Það hafa margir hugvitssamir einstaklingar komið með alls kyns nýjungar á markað sem hafa haft það að markmiði að bæta eða auðvelda líf fólks á einhvern hátt. Sumar stórskrítnar, aðrar býsna snjallar og enn aðrar hreinlega hættulegar.

Lítum á nokkur dæmi um slíkt.

Saumavélahjólið

Þetta frumlega hjól var hannað árið 1939 og var hugmyndin sú að ef að fjölskyldan færi út að hjóla gæti allir bæði notað sama hjólið á meðan að móðirin saumaði og var saumavélin knúin af hjólreiðafólkinu.

Þótt ótrúlegt megi virðast var saumavélahjólið nokkuð vinsælt í Chicago þótt að það þætti aldrei beint eðlilegt samgöngutæki. Var yfirleitt glápt á fjölskyldurnar hjóla með mömmuna að sauma og fannst flestum notendum það afar óþægilegt.

Smám saman dó markaðurinn fyrir saumavélahjólið út.

Sígaretturegnhlífin

Reykingamenn þekkja það mæta vel hversu erfitt getur verið að kveikja í þegar rignir, svo og að halda lífi í rettunni.

Einhver hugmyndaríkur einstaklingur fann upp sígaretturegnhlífina árið 1931 og átti hún að auðvelda reykingar í rigningu. Hugmyndin er langt frá því að vera vitlaus en náði aldrei vinsældum.

Fjölrakstursvélin

Þessi magnaða græja átti að leysa biðraðir hjá rökurum í byrjun 20. aldarinnar þar sem unnt var, eða svo var talið, að með henni væri hægt að raka 12 menn  einu.

Aftur á móti rakaði vélin alla á nákvæmlega sama hátt, óháð beinabyggingu, skeggvexti eða þyngd, og þar af leiðandi, andlitslagi mannanna.

Mennirnir komu því vægast sagt misvel rakaðir úr maskínunni og urðu vinsældir hennar skammlífar.

Hungurgríman

Gríman, sem átti að koma í veg fyrir að fólk nærðist, kom á markaðinn í upphafi níunda áratugar síðustu aldar.

Markhópurinn var fremur sérkennilegur, sérstaklega var auglýsingum beint að veitingastöðum og þeir hvattir til að fjárfesta i græjunni til að koma í veg fyrir að kokkar og annað starfsfólk væri sífellt að laumast í matinn.

Gríman var einnig sögð hentug fyrir húsmæður í megrun svo og þær sem ekki gátu stillt sig um að smakka afurðirnar við bakstur og gerð annars gúmmelaðis.

Merkilegt nokk, þá náði gríman aldrei vinsældum.

Mjaðmaminnkarinn

Hugmyndin að baki tækinu var að konur, (að sjálfsögðu konur,) gætu losað sig við fitu á maga og mjöðmum með því að ,,titra” hana i burtu.

Tækið rokseldist á sjötta og sjöunda áratugnum þrátt fyrir að konur, (að sjálfsögðu konur), kvörtuðu yfir þvi að grennast ekki um gramm og fá marbletti á rass, mjaðmir og maga.

Sama grunntæknin er þó notuð enn í dag í baráttunni við aukakílóin en hefur verið betrumbætt verulega.

Skeggskjöldurinn

Skeggskjöldurinn kom á markaði 1876 og er í sjálfu sér ekki flókinn. Um er að ræða málmskjöld sem festur er með böndum fyrir aftan eyrun.

Á þessu árum voru flestir karlmenn með yfirvararskegg og var hugmyndin að með notkun skjaldarins væri unnt að koma í veg fyrir að matur og drykkur festist í skegginu.

Ekki fer sögum af örlögum skeggskjaldarins.

Lyftan sem aldrei stoppar

Um var að ræða tvær lyftur hlið við hlið, báðar án dyra. Önnur fór upp og hin niður, hring eftir hring án þess að stöðvast. Þær fór hægt og gat fólk hoppað inn í þær að vild – engir voru takkarnir.

Lyfturnar urðu vinsælar viða um heim, einkum í opinberum byggingum og háskólum enda ekki taldar heppilegar börnum.

Framleiðslu á lyftunum var hætt um miðjan áttunda áratuginn þar sem þær þóttu of hættulegar.

Hurðarlausu lyfturnar sem aldrei stöðvast eru þó enn í notkun á einstaka stöðum, einna helst í Þýskalandi og Tékklandi.

Útvarpshatturinn

Fyrir tíma vasadiskóa, hvað þá snjallsíma, hóf bandarískt fyrirtæki að framleiða hatta með innbyggðu útvarpi og náðust útsendingar í allt að 30 kílómetra færi. Útvarpshatturinn var knúinn áfram með rafhlöðu sem notandi hafði í vasa sínum.

Útvarpshattarnir slógu í raun og sann í gegn og voru seldir í flestum stórverslunum Bandaríkjanna auk þess sem að hattarnir seldust eins og heitar lummur í gegnum pöntunarlista.

En í byrjun sjötta áratugarins fór salan að hnigna og árið 1955 var framleiðslu hætt, enda eftirspurnin enginn.

Voru þá komin fram lítil útvarpstæki sem urðu banabiti útvarpshattarins.

Barnavagnsbíllinn

Barnavagnsbíllinn kom á markað í kringum 1930 og gat náð hvorki meira né minna en 24 kílómetra hraða á klukkustund.

Þótt að hann sé löngu horfinn í upphaflegri útgáfu er enn hægt að fá rafræna fararskjóta sem einnig eru hannaðir með ungabörn í huga.