Fyrsta banvæna bjarnarárás sögunnar á Ítalíu – DV

0
184

Á miðvikudag í síðustu viku réðst björn á 26 ára skokkara á skógarstíg nærri bænum Caldes á norðanverðri Ítalíu. Björninn varð manninum að bana. Fjölskylda mannsins hafði samband við lögregluna þegar hann skilaði sér ekki heim úr hlaupatúrnum og fannst hann síðar látinn á stígnum.

Niðurstaða krufningar lá fyrir á föstudaginn og sýndi hún að maðurinn var með djúpa áverka á hálsi, handleggjum og bringu og að það hefði verið bjarndýr sem veitti honum þessa áverka.

Þetta er í fyrsta sinn í sögunni, svo vitað sé, að bjarndýr hefur banað manni á Ítalíu.

Í mars réðst björn á mann á sama svæði. Þá hófst töluverð umræða um hættuna sem stafar af bjarndýrum. Þau voru útdauð á þessu svæði en frá 1996 til 2004 voru bjarndýr flutt á svæðið og sleppt út í náttúruna.

Yfirvöld reyna nú að finna bjarndýrið og er ætlunin að fella það. Náttúruverndarsamtökin WWF hafa sagt að fella þurfi dýrið.

Annamaria Procacci, sem berst fyrir réttindum dýra, segir að yfirvöld hafi ekki staðið sig nægilega vel við að setja upp búnað til að halda dýrunum aðskildum frá fólki. Hún segir að birnir haldi sig venjulega fjarri fólki en það sé á ábyrgð yfirvalda að tryggja að fólk haldi sig frá svæðum þar sem birnurnar ala húna sína upp.