1.3 C
Grindavik
27. nóvember, 2021

Fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið sem kolefnisjafnar

Skyldulesning

Að lokinni undirskrift samningsins á aðalskrifstofu Skógræktarinnar. Frá vinstri: Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri rekstrarsviðs Skógræktarinnar, Páll Snorrason, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs Eskju, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Erna Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður Eskju, og Sigrún Ísaksdóttir, skrifstofustjóri hjá Eskju.

Ljósmynd/Skógræktin

Eskja hf. á Eskifirði mun vera fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið sem ræðst í kolefnisjöfnun í samræmi við kröfur Loftslagsráðs og hefur útgerðarfélagið samið við Skógræktina um að þróa kolefnisverkefni í landi jarðarinnar Freyshóla á Fljótsdalshéraði.

Á Freyshólum hyggst fyrirtækið binda kolefni með nýskógrækt á um 30 hektara svæði og er hlutverk Skógræktarinnar að gera ræktunaráætlun fyrir svæðið, verkefnalýsingu fyrir kolefnisverkefnið ásamt kolefnisspá og kostnaðaráætlun til 50 ára. Fram kemur í færslu á vef Skógræktarinnar að stefnt sé að því að hefja gróðursetningu í byrjun næsta sumars og því á að ljúka vorið 2023. Fullgróðursett verður í svæðið og við tekur vaxtartími skógarins með reglulegum úttektum.

Með gróðursetningunnni verða til vottaðar kolefniseiningar á móti samsvarandi losun vegna starfsemi Eskju. „Gangi allt að óskum verða fyrstu vottuðu einingarnar til að fimm árum liðnum frá því að gróðursetningu lýkur,“ segir í færslunni.

Eskja gerir meðal annars út Aðalsteinn Jónsson SU-011.

Ljósmynd/Eskja

Fluttu vinnslu á land

Eskja hefur þegar gripið til ýmissa aðgerða til að draga úr kolefnisspori félagsins og hefur því meðal annars verið lýst í samfélagsskýrslu Eskju sem kom út fyrr á árinu.

Þar segir að félagið hafi „fjárfest í lausnum sem stuðla að betri nýtingu auðlinda og sjálfbærni“ og er meðal annars vísað til þess að vinnsla hafi verið færð í land þar sem vinnslan notar rafmagn. „Allt rafmagn sem Eskja kaupir kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum, annaðhvort vatnsafli eða jarðvarma,“ segir í samfélagsskýrslunni.

Jafnframt er lögð áhrersla á að fjárfesta í sparneytnari skipum til að draga úr olíunotkun en hún hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Þá hefur Eskja alfarið hætt notkun á svartolíu.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir