Fyrstu merkin um Alzheimers geta birst í augunum – DV

0
93

Augun eru meira en bara gluggi inn í sálina, þau eru einnig endurvarp af andlegri heilsu fólks. Dr Christine Greer, hjá Institute for Neurodegenerative Diseases í Boca Raton í Flórída, sagði í samtali við CNN að augun séu gluggi inn í heilanna. Með því að skoða aftasta hluta augnanna sé hægt að sjá beint inn í taugakerfið.

Vísindamenn hafa verið að rannsaka hvernig sé hægt að nota augun til að aðstoða við greiningu á Alzheimers áður en sjúkdómseinkenni gera vart við sig. Þegar fyrstu einkennin gera vart við sig er sjúkdómurinn kominn töluvert á veg og farinn að hafa áhrif á minnið og hegðun sjúklinganna.

„Alzheimers byrjar í heilanum áratugum áður en fyrstu einkenni minnistaps koma fram,“ sagði Dr Richar Isaacson, hjá sömu stofnun, um málið. Hann sagði einnig að ef læknum takist að greina sjúkdóminn á fyrstu stigum hans geti sjúklingarnir tekið heilbrigðar lífsstílsákvarðanir og stýrt áhættuþáttum á borð við of háan blóðþrýsting, of mikið magn blóðfitu og sykursýki.

Í nýrri rannsókn var rannsakað hvernig er hægt að sjá merki um andlega hnignun í augunum. Vefjasýni úr augum og heila 86 Alzheimerssjúklinga voru rannsökuð og borin saman við sýni úr heilbrigðu fólki.

Í ljós kom að ákveðnum tegundum frumna fækkar í fólki sem glímir við minnisvandamál. Þessar frumur sjá um að gera við og viðhalda öðrum frumum. Þær sjá meðal annars um að hreinsa beta-amyloir, sem er eitt helsta einkenni Alzheimers, úr fólki.

Vonast vísindamenn til að í framtíðinni verði hægt að sjá ummerki um þróun af þessu tagi með því að rannsaka augu fólks.