4 C
Grindavik
7. mars, 2021

Gætt sé að sóttvörnum í hvívetna

Skyldulesning

Björgunarsveitarmenn að störfum á Seyðisfirði.

Með vísan til atburðanna á Seyðisfirði vekur aðgerðastjórn lögreglunnar á Austurlandi sérstaka áherslu á mikilvægi þess að gætt sé í hvívetna að sóttvörnum á svæðinu öllu og ekki síst í kringum þá umferð og vinnu sem er á Seyðisfirði og á Egilsstöðum.

Aðgerðastjórn gerir sér grein fyrir að tilfelli koma upp þar sem slíkt er ekki mögulegt í ljósi aðstæðna en áréttar mikilvægi þess að við höfum sóttvarnir eftir sem áður ávallt í huga hvar sem við erum og hvað sem við sýslum, að því er kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn.

Fram kemur að mikilvægt sé „að við notum grímu í matsal, að við notum grímu þegar við vinnum í hóp, að við notum grímu þegar við erum í björgunarmiðstöð og að við notum grímu í fjöldahjálparstöð. Að við gætum einnig að fjarlægðarmörkum og að handþvotti og sprittnotkun. Við munum áreiðanlega gleyma þessu á einhverjum tímum en alltaf skulum við hafa þetta í huga og gera einfaldlega betur næst,“ segir í tilkynningunni.

Þá áréttar aðgerðastjórn þá kröfu sóttvarnayfirvalda að enginn utan svæðis komi til aðstoðar á Seyðisfjörð óskimaður.

„Höldum áfram að gera þetta saman þannig að aðventan og hátíðarnar megi fara smitlausar fram og ekki síður að björgunar- og uppbyggingastarf á Seyðisfirði haldi áfram ótruflað.“

Innlendar Fréttir