Gamalt minnismerki bjó yfir dapurlegu leyndarmáli – DV

0
129

Daglega ganga íbúar í svissneska bænum Chur fram hjá stóru minnismerki í kirkjugarði bæjarins. Það hefur staðið þar í heilan mannsaldur og er jafn eðlilegur hluti af kirkjugarðinum og fallegir legsteinarnir. En þetta stóra minnismerki býr yfir dapurlegu leyndarmáli. Þetta er leyndarmál sem Stefanie Hablutzel, blaðamaður í bænum, hefur komist að eftir því sem BBC segir.

Minnismerkið var reist til minningar um þýska hermenn sem féllu í fyrri heimsstyrjöldinni. Það er í sjálfu sér ekki vandamál.

Vandamálið er að minnismerkið var ekki reist strax eftir fyrri heimsstyrjöldina. Það var reist 20 árum síðar, 1938 og þá af nasistum.

„Það var ekki reist til að minnast látinna hermanna. Það var reist sem hluti af áróðursmaskínuninni,“ er haft eftir Hablutzel.

Martin Bucher, sagnfræðingur og sérfræðingur í svissneskri sögu, sagði að samhliða meiri völdum nasista hafi dýrkun á föllnum þýskum hermönnum orðið hluti af áróðri þeirra. Þetta breiddist út til samtaka nasista í öðrum ríkjum, þar á meðal til þýska minnihlutans í Sviss.

Hann sagði einnig að þegar minnismerkið var reist hljóti bæjarbúar að hafa vitað hver reisti það og hvaða merkingu það hafði. Til dæmis hafi verið mjög eðlilegt að skreyta það með hakakrossinum á ákveðnum dögum.

Nú ræða bæjarbúar ákaft hvað eigi að gera við minnismerkið. Enn sem komið er aðhyllast flestir tillögu um að minnismerkið fái að vera áfram á sama stað en því verði breytt til að það fái aðra þýðingu.