Gamli maðurinn ætlaði að kaupa steik – Brjálaðist þegar hann gat það ekki – DV

0
90

Allt hefði getað farið á versta veg þegar maður, sem býr í bænum Republic í Missouri í Bandaríkjunum, fór í stórmarkaðinn fyrir nokkrum dögum til að kaupa steik. Hann ætlaði að kaupa góða steik en fékk ekki því kjötborðið var lokað. Hann reiddist svo við þetta að hann tók upp skammbyssu og hótaði starfsmanni með því að halda byssunni alveg upp að hálsi hans.

The Independent skýrir frá þessu. Fram kemur að í dómsskjölum komi fram að maðurinn hafi sagt við starfsmanninn að hann þyrfti aðstoð við að láta skera nokkrar steikur fyrir sig. „Ég vil ekki meiða þig,“ sagði hann við starfsmanninn.

Starfsmaðurinn sagði lögreglunni að ágreiningur hafi komið upp þegar hann sá manninn skera sitt eigið kjöt eftir að búið var að loka kjötborðinu. Þegar hann gekk til mannsins dró hann skammbyssuna upp.

„Þegar hann þrýsti skammbyssunni upp að hálsi mér hugsaði ég með mér að best væri að gera það sem hann vildi,“ sagði starfsmaðurinn.

Lögreglan var kölluð á vettvang og handtók hún hinn ósátta viðskiptavin, sem er sjötugur, þar sem hann sat í bíl sínum á bílastæði verslunarinnar.

Hálfsjálfvirk skammbyssa fannst á manninum.