6 C
Grindavik
21. apríl, 2021

„Gegndarlaus eftirspurn eftir laxi í heiminum“

Skyldulesning

framkvæmdastjóri Benchmark Genetics Iceland

mbl.is/Kristinn Magnússon

Árið 2020 var nokkuð gott fyrir Benchmark Genetics Iceland að sögn Jónasar Jónassonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Fyrirtækið sem stofnað var 1991 undir nafninu Stofnfiskur hefur séð gríðarlegan vöxt undanfarin ár og eykst áhuginn á íslenska laxastofninum sífellt.

„Árið hjá okkur endar í lok september og við erum að gera upp. Ég sé að árið hefur verið mjög gott. Það hefur verið stöðug aukning í sölu á hrognum og hrognkelsum. Frá því að Benchmark Holding plc group keypti okkur 2014, hefur veltan nánast þrefaldast og er nú rétt innan við fjóra milljarða,“ segir Jónas og vísar til þess að greinin hefur orðið fyrir nokkrum breytingum með alþjóðavæðingu viðskipta undanfarin ár. Nú sé hægt að flytja hrognin um heim allan og hefur samstarfið við móðurfélagið breytt viðhorfi til félagsins.

Hann segir að sú breyting að fyrirtækið varð hluti af alþjóðlegri starfsemi móðurfélagsins sé alþjóðlegur gæðastimpill sem vottar í augum kaupenda að um sé að ræða stöndugt fyrirtæki með mikla gæðaafurð. „Það er erfitt að vera að selja bara á Íslandi á íslenskum forsendum,“ segir Jónas.

Stefnt að stækkun

Fyrirtækið seldi 120 milljónir laxahrogna í fyrra, að sögn Jónasar. „Það virðist vera og er mat manna að það sé alveg gegndarlaus eftirspurn eftir laxi í heiminum. Fólki líkar hann mjög vel, þetta er hollur matur, auðvelt að matreiða og mjög ljúffengur. Það er bara mjög mikil og aukin eftirspurn. Í þessu ljósi hafa eigendur Benchmark skoðað hvernig staðan er á Íslandi og nú er komin sú staða að hrognahúsin hjá okkur eru hreinlega orðin of lítil.“

Hrogn frjóvguð á stöðinni í Vogum.

Ljósmynd/Benchmark Genetics Iceland

„Þegar við framleiðum laxahrogn þurfa þau að þroskast í einhvern ákveðinn tíma við mjög góðar aðstæður og nú er búið að ákveða að stækka þá aðstöðu í Vogunum. Þannig að við erum byrjuð núna að byggja ansi stórt hrognahús,“ segir hann. Stefnt er að því að nýtt hrognahús fyrirtækisins í Vogunum verði tekið í notkun næsta sumar.

Aðspurður segir Jónas stækkunina ekki kalla á fjölgun starfsmanna þar sem um verður að ræða hátæknibyggingu sem gerir fyrirtækinu kleift að auka gæði hrognanna og auka við framleiðsluna til að mæta aukinni eftirspurn, sem hann telur verða mikla á komandi árum. „Það sem er að gerast í heiminum í dag er að það er mikil bylgja í að ala lax á landi,“ útskýrir Jónas og vísar til stórra eldisstöðva sem reistar hafa verið á landi í Bandaríkjunum, Noregi, Rússlandi, Kína og fleiri stöðum. „Þegar menn fara að ala á landi þurfa menn að hafa aðgang að hrognum allt árið og við hjá Benchmark höfum sérhæft okkur í að framleiða og afhenda hrogn allt árið.“

Ísland í sérstöðu

Hann segir ljóst að starfsemin muni halda áfram að vera hér á landi og ekki síst vaxa á komandi árum. „Eigendur Benchmark gera sér grein fyrir því að Ísland er í lykilstöðu til að geta afhent allt árið. […] Ástæðan er þessar einstöku aðstæður. Við erum með aðgang að heitum jarðsjó og líka miklu köldu ferskvatni. Allt þetta er bráðnauðsynlegt til að ná fram góðri hrygningu í laxi hvenær sem er allt árið. Svona aðstæður er ekki hægt að finna hvar sem er í heiminum,“ útskýrir Jónas og bætir við að einnig skipti miklu máli hve hreinleiki laxastofnins á Íslandi er mikill.

Klak­stöð og Hrogna­hús í Voga­vík.

Ljósmynd/Benchmark Genetics Iceland

Það er ekki hægt að nýta hvaða fisk sem er í hrognaframleiðslu í fremsta gæðaflokki. „Við erum með tvær stöðvar á Reykjanesi, aðra í Vogunum og hina við Kalmanstjörn, sem eru sérhannaðar til að framleiða klakfisk af laxi. Þetta eru kannski 12 til 14 kílóa fiskar sem við nýtum hrognin úr. Á bak við þetta liggur mikið kynbótaverkefni þar sem við erum sífellt að beturumbæta stofnana og þá verður þetta mjög eftirsótt og allur laxeldisiðnaðurinn á Íslandi notar þetta. Það er síðan aukin eftirspurn frá útlöndum.“

Kári myndi blikna

Jónas segir gríðarlegt vísindastarf liggja að baki laxastofnsins sem fyrirtækið framleiðir, en hann ber nafnið Stofnfiskur. Benchmark hefur á sínum snærum 14 erfðafræðinga sem vinna að því að skoða og kortleggja erfðaefni laxins. „Þeir eru að skoða þætti erfða í eiginleikum eins og til dæmis lífsþrótti og vaxtarhraða. Innan Benchmark er mjög öflugt vísinda- teymi, bæði erfðafræðingar og líka sameindaerfðafræðingar sem eru að kortleggja erfðamengi laxins okkur til framdráttar.“

„Ég held að Kári [Stefánsson] myndi blikna ef hann vissi hvað við erum að gera,“ segir hann og hlær.

Estrela Abelleira vinnur með hrogn frá Stofnfiski í seiðastöð Arctic Fish í Tálknafirði. Hún hreinsar egg og dauð seiði úr klakbökkunum.

mbl.is/Helgi Bjarnason

Þá er alls ekki erfitt að finna starfsfólk með alla þá þekkingu sem framleiðsla af þessum toga krefst, að sögn framkvæmdastjórans. „Hér innanlands erum við bæði með íslenska og erlenda starfsmenn. Af því að við búum svo vel að vera með alþjóðlega tengingu þá er enginn skortur á góðu fólki, en heldur ekki hér á Íslandi. Við erum með mjög gott starfsfólk og hjá fyrirtækinu starfa í dag um 80 manns. Við erum hér með vísindadeild og erum í samstarfi við Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnun. Við höfum verið heppin, það hefur gengið vel að manna það sem við erum að gera.“

Laxeldið vaxið mest

Spurður um forsendur áframhaldandi vaxtar, svarar Jónas: „Ég held að allir séu sammála um það að við förum ekki að veiða fleiri fiska og á sama tíma er mannkyninu að fjölga. Þannig að það þarf að auka matvælaframboð.“

Bendir hann á að laxeldi hefur verið sú grein innan matvælaiðnaðar sem hefur vaxið mest undanfarin ár og telur ástæðuna meðal annars vera þá hve laxinn er góð og holl vara. Þá sé einnig mikilvægt atriði að laxeldið búi til prótein með lágt kolefnisspor sem skiptir neytendur og yfirvöld sífellt meira máli.

Kviðpokaseiði sem verða að stæðilegum laxi þegar fram líða stundir.

Ljósmynd/Benchmark Genetics Iceland

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir