2 C
Grindavik
24. nóvember, 2020

Giljaskóli hlýtur viðurkenningu frá UNICEF

Skyldulesning

Nemendur og starfsfólk Giljaskóla fagna tíu ára afmæli skólans árið …

Nemendur og starfsfólk Giljaskóla fagna tíu ára afmæli skólans árið 2016.

Ljósmynd/Kristján Kristjánsson

UNICEF á Íslandi veitti grunnskólanum Giljaskóla á Akureyri viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF í dag, sem gerir hann að þeim fyrsta utan höfuðborgarsvæðisins. Tímasetning viðurkenningarinnar er sérstaklega viðeigandi, en í dag er alþjóðadagur barna og afmælisdagur Barnasáttmálans.

„Það hefur verið unun í hverju skrefi að sjá hvernig börnin í Giljaskóla og starfsfólk skólans hafa tekist á við það verkefni að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í starf skólans,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.

Giljaskóli á Akureyri.

Giljaskóli á Akureyri.

„Þau hafa gert það með ótrúlega fallegri samvinnu og fagmennsku. Okkur hefur þótt eftirtektarvert að sjá hvað börnin í skólanum fá að taka ríkan þátt í starfi skólans heilt yfir.“

Í viðurkenningunni felst að grunnforsendur Barnasáttmálans eru útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skólastarfi Giljaskóla. Börnin hafa því fengið fræðslu um sáttmálann og réttindi sín og jafnaldra sinna um allan heim og Réttindaráð verið skipað af nemendum úr fyrsta upp í tíunda bekk.

Þá hefur skólinn sett á laggirnar metnaðarfulla áætlun með það að markmiði að tryggja að öll börn þekki réttindi sín enn betur og að þau hafi merkingarbær og regluleg áhrif á allt starf skólans – ekki síst eigið nám og námsaðstæður.

Innlendar Fréttir