Valéry Giscard d’Estaing fyrrverandi forseti Frakklands er látinn, 94 ára að aldri. Andlát hans er sagt tengt veikindum af völdum Covid-19 en hann hafði nýverið verið lagður inn á sjúkrahús í Tours í Vestur-Frakklandi.
Giscard d’Estaing var forseti Frakklands frá 1974 til 1981 og er einna þekktastur fyrir að hafa „siglt Frakklandi inn í nútímann“ í forsetatíð sinni. Það var til að mynda undir hans stjórn sem þungunarrof var lögleitt í Frakklandi og lög um hjónaskilnaði gerð frjálsari.
Hann laut að endingu í lægra haldi fyrir mótframbjóðanda sínum, jafnaðarmanninum François Mitterrand, í forsetakosningum 1981.
Þá var Giscard d’Estaing mikill Evrópusinni og sat um tíma á Evrópuþinginu. Hann lætur eftir sig eiginkonu og fjögur börn.