5.4 C
Grindavik
18. maí, 2021

Glæpónabakarar og fávitavarp

Skyldulesning

Kaffivél og kvörnLífið er stutt – það stutt að maður á ekki að eyða því í að drekka vont kaffi – svo ég fór í Kaffitár í Borgartúni og keypti mér alvörukaffimaskínu og -kvörn og alls konar fylgihluti.

Einhvern tímann á næsta ári þegar ég hef lært á græjurnar verður nú aldeilis gaman að geta boðið upp á alvöru-latte. Er jafnvel að hugsa um að nota páskafríið í námið en miðað við gengi mitt í tölvu- og netmálum grunar mig að útkoman yrði te eða jafnvel eplasafi, hvað veit maður? Veit að stutt er í leiðbeiningar á íslensku frá Kaffitári – þrjú myndbönd sko. Ég fékk heilt kíló af Húsblöndu í kaupbæti og er enn hlýtt í hjartanu eftir einstaka þjónustu.

Talandi um drykki / drykkju … ég fór á Vor í dal á sínum tíma en það var Hilda systir sem fór á Rauðhettu – ekki ég. Mögulega var ég vaxin upp úr útihátíðaveseni eða var að vinna hjá Hraðfrystistöðinni í Grindavík og fór þá á hátíðina Svartsengi (sem mig minnir) – eða var úti í Eyjum að vinna í Ísfélaginu og þá var nú sjálfmætt á Þjóðhátíð (1974). Ekki með ártöl allra hátíða á hreinu. 

ÚtihátíðUnglingadrykkja var mikil og alveg umborin á þessum tíma (áttunda áratug síðustu aldar) og sá unglingur þótti flottur sem gat t.d. smyglað víni inn á útihátíðir. Líklega á visst skyldmenni mitt smyglmetið … hún var að vinna í bakaríi á þessum tíma og spurði bakarana hvort þeir væru ekki til í að skella einni Brennivín og einni Bianco (hver man ekki eftir Bianco?) inn í brauðdeig og baka. Glæpónabakararnir voru alveg til í það fyrir þessar unglingsstelpur svo þær gætu dottið í það á Rauðhettu. Inn komust þær með brauðin tvö – engin ástæða til að halda nokkuð misjafnt, enda gekk blekkingin það langt að með brauðinu í pokanum var bæði smjör og álegg til að gulltryggja glæpinn. Svo drukku börnin sitt brennivín og keyptu eflaust rækjusamlokur með einni rækju – eins og algengt var á þeim tíma. Aldrei of illa farið með góða unglinga hét þessi samlokugerð, ef ég man rétt.

Í dag hefði þetta orðið barnaverndarmál og bakararnir verið reknir, gott ef ekki nánast lent á Hrauninu. Enn er drukkið en nú fer það ekki jafnhátt. Þegar krakkar eru komnir í menntó eru bjórkvöld fastur liður – og fyrirpartí (á undan t.d. árshátíð) og þar drekka sextán ára krakkar jafnt sem nítján ára. Drekka allt sem rennur nema skíðasleða og magasleða, eins og Halla frænka myndi orða það. Covid hefur auðvitað klúðrað bjórkvöldum í heilt ár.

Við systur fórum líka í Costco – mig langaði í ketilbjöllu og ég fann ketilbjöllu – sem ég keypti þótt hún væri sennilega allt of þung fyrir byrjendur, eða 12 kíló. Ég fer bara rólega í þetta. Afgreiðslumaðurinn almennilegi (frá Marokkó, giftur íslenskri og búsettur hér í 12 ár) horfði aðdáunaraugum á mig (eins og karlarnir í ræktinni) þegar hann sá ketilbjölluna. Hann var ekki jafnglaður þegar hann sá nautahakkið, sítrónukökuna (sandkaka með sítrónubragði, mjög góð), viftuna fyrir sumarið (hitinn hér við tölvuna fer upp í 40°C á ömurlegustu dögunum. Vont veður í mínum huga: sól, logn og hiti yfir 15°C) – hef ekki keypt meira árum saman í Costco og ekki er allt upptalið. Kortið borgar sig alltaf upp í fyrstu heimsókn eftir endurnýjun, í alvöru. Eins og fyrst, fínir skór þar á 3.700 kr. en kostuðu vel yfir 10 þúsund kr. „á Íslandi“ eins og fólk orðaði það, fannst það vera statt erlendis – gott grænmeti og ávextir og frekar lítið okur …

FávitavarpiðSvo heimsóttum við mömmu og dáðumst að útsýninu hennar, sófanum sem við keyptum fyrir hana um daginn, Pétri í útvarpinu (djók) en ég lét hana samt vita að Jóhannesarpassían yrði á Rás 1 um páskana …

Davíð skutlaði okkur heim á Skagann, enda bíllinn troðfullur af dóti fyrir mig – þar var líka nýi skrifborðsstóllinn fyrir drenginn – og með Muse á hæsta tók ferðin í raun bara tíu mínútur, þannig.

MYND NR. 3: Það var gaman að sjá fólk veifa í gegnum vefmyndavélina svona fyrstu 200 skiptin, svo fór það að verða leiðingjarnt, síðan pirrandi. Nú hefur verið stofnaður Facebook-hópur fyrir þá sem hafa ekki alveg nógu gaman af því þegar einhver skyggir á gosið þeirra.


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir