3 C
Grindavik
28. nóvember, 2020

Glas­gow spilað fjóra leiki síðan Valur spilaði síðast: „Staðan er þokka­lega góð“

Skyldulesning

Pétur Pétursson, þjálfari kvennaliðs Vals í fótbolta, segir Glasgow City sé mun betra en HJK frá Helsinki. Hann segir að formið sé fínt en að það vanti þó upp á leikformið.

Valur vann 3-0 sigur á HJK frá Helsinki í 1. umferðinni en í annarri umferðinni, sem spiluð verður á morgun, mæta Valsstúlkur Skotunum. Leikið verður á Origovellinum klukkan 14.00.

„Þetta eru reynslumiklir leikmenn og lið sem er búið að vinna þrettán titla í röð í Skotlandi. Þær spila mjög góðan fótbolta og hafa náð langt undanfarin ár í Meistaradeildinni,“ sagði Pétur sem segir stöðuna á liðinu fína.

„Staðan er ágæt. Við erum í smá hnjaski en staðan er þokkalega góð.“

Komist Valur í gegnum Skotana þá eru þær komnar í 32 liða úrslitin þar sem mörg af stærri liðum heims eru í pottinum.

„Það er draumurinn að komast í 32-liða úrslitin og fá allavega tvo leiki í viðbót en við þurfum að eiga góðan leik til að vinna þetta lið.“

Valur hefur ekkert getað spilað æfingaleiki enda bannað að spila hér á landi. Valsliðið fékk þó undanþágu til þess að æfa og hefur getað æft síðustu tíu daga.

„Þetta er betri undirbúningur en á móti HJK. Við erum búin að fá að æfa og undirbúa okkur vel. Við höfum æft í tíu daga og ég held að formið sé ágætt en leikformið er ekki gott. Glasgow er búin að spila fjóra leiki í röð á meðan við spilum engan þannig að það getur haft eitthvað að segja en þetta er einn leikur í 90 mínútur,“ sagði Pétur.

Leikur Vals og Glasgow City verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í dag og hefst útsending klukkan 13.45.

Klippa: Sportpakkinn – Pétur Pétursson

Innlendar Fréttir