Góð veiði hjá Gullver og Ljósafelli

0
63

Gullver kom til hafnar á Seyðisfirði með 119 tonn. Mynd úr safni. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Ómar Bogason

Gullver kom til hafnar á Seyðisfirði í gær með 119 tonn og er unnið að löndun í dag. Steiþór Hálfdanarson, skipstjóri á togaranum, segir veitt hafa verið í fjóra daga í blíðskaparveðri.

„Veitt var á okkar hefðbundnu slóðum í Berufjarðarál og í Hvalbakshallinu og síðan kíktum við í Lónsdýpið. Aflinn var mjög blandaður en mest þorskur. Nú er stærri fiskur farinn að sjást á þessum miðum eins og gerist á hverju vori. Við lögðum dálitla áherslu á að ná í karfa. Það hefur ekki verið mikill karfi fyrir austan en nú urðum við ágætlega varir við hann og fengum rúmlega 20 tonn,“ segir Steinþór í færslu á vef Síldarvinnslunnar.

Veiðin hefur einnig gengið vel hjá áhöfninni á Ljósafelli og kom skipið til hafnar á Fáskrúðsfirði í gærkvöldi með 115 tonna afla. Framkemur á vef Loðnuvinnslunnar að aflinn hafi verið blandaður og voru um 60 tonn ufsi, 30 tonn þorskur og 18 ýsa.

Gullver heldur til veiða á ný í kvöld, en Ljósafellið heldur til veiða á mánudagsmorgun.