Goðsagnakenndur „katta-refur“ gæti verið ný undirtegund – DV

0
66

Kynslóðum saman hafa íbúar á Korsíku sagt sögur af „ghjattu volpe“ (kattar-refnum) sem er sagður hafa ráðist á kindur og geitur. Vísindamenn staðfestu tilvist dýrsins 1929 og fljótlega verður hugsanlega hægt að lýsa það sem nýja undirtegund. Það eru nýjar erfðafræðilegar rannsóknir sem gefa tilefni til þess að sögn Live Science.

„Katta-refurinn“ fékk nafnið vegna litarháttarins sem er líkur litarhætti refs og langs skotts. En þrátt fyrir nafnið þá er þetta dýr ekki afkvæmi katta og refa. Þetta er 100% köttur.

Korsískir villikettir eru af sömu ætt og aðrir villikettir og heimiliskettir. Vísindamenn vinna nú að rannsókn á erfðamengi þeirra til að geta skorið nákvæmlega úr um staðsetningu þeirra innan ættarinnar.

Niðurstöður rannsóknar, sem var birt í janúar í Molecular Ecology, sýna að þessi tegund sé hugsanlega undirtegund eða fjarskyldur hópur þekktra kattategunda. Vísindamennirnir hafa sönnun þess að tegundin sé með sitt eigið erfðafræðilega einkenni og er það fyrsta skrefið í átt að viðurkenningu hennar sem undirtegundar.