Gott að vera kominn heim!

0
119

Gott að vera kominn heim!

April 25 01:15 2013

Nýlega var tekin sú ákvörðun að ráða 2 vélstjóra um borð í Júlíus Geirmundsson, en fram að því höfðu aðeins  yfirvélstjóri og 1 vélstjóri gengið vaktir í vélarúmi.  Þá voru 10 manns á hvorri vakt í vinnslunni. Nú hins vegar fækkaði um einn á annari vaktinni við ráðningu þessara vélstjóra.

Annar þeirra sem ráðinn var er Júllamönnum að góðu kunnur, enda starfað hér um árabil. Það er Árni Freyr Elíasson sem var hér um borð frá 2004 -2008. Hann fór í vélskólann og kláraði þar sitt nám og réð sig síðan á Hrafn Sveinbjarnarsson GK, en alltaf blundaði í honum þrá eftir Júlíusi og þegar opnaðist fyrir umsókn um vélstjóra, var hann ekki seinn á sér að sækja um…og fékk starfið.

Aðspurður segist Árni afar ánægður og í raun í skýjunum yfir að komast á Júlíus aftur. Kvaðst hann vera dauðfeginn að vera laus við rokið á fyrir sunnan og unir sér vel í blíðunni fyrir vestan.  Mest um vert er að vera laus við millilandanirnar sem fóru ekki vel í hann þegar hann sótti sjóinn fyrir sunnan…. (Þess má geta að aldrei þessu vant millilandaði Júlíus í þessum fyrsta túr Árna)

Árni er á fullu að koma sér inní hlutina hér um borð og viðurkennir að flest sé auðvelt, en einna helst sé það fötutæknin sem vefst fyrir honum…. „En það lærist eins og annað“ sagði Árni glaðhlakkalegur og skundaði aftur í vélarúm…

Júllinn býður Árna velkominn til starfa og vonast eftir að geta sagt fullt af fréttum af honum á komandi tímum….