7 C
Grindavik
2. mars, 2021

Gríðarleg mengun í Reykjavík – Almenningur hvattur til að keyra minna og forðast útivist við umferðargötur

Skyldulesning

Gríðarlega háar tölur mælast nú á svifryksmælum á höfuðborgarsvæðinu. Þannig var mælirinn á horni Grensásvegar og Miklubrautar á rauðu milli klukkan 8 og 10 í morgun og sýnir nú appelsínugult. Hæst fóru svifryks tölurnar þar í 127 míkrógrömm á rúmmetra (µg/m³). Nú klukkan 14:00 stóð mælingin í sléttum 100.

Um miðjan nóvember var sagt frá því í fréttum að börn í leikskólanum Álftaborg við Safamýri hafi verið haldið inni vegna mengunar. Þá mældist styrkur svifryks í andrúmslofti við Grensásveg 148 µg/m³.

Samkvæmt vefsíðunni Loftgæði.is er ástandið ögn skárra þar sem aðrir mælar borgarinnar eru staðsettir. Þó sýnir mælirinn við Bústaðaveg og Háaleitisbraut gult ástand eða 58 µg/m³. Hæst fóru tölurnar þar í 84.4 µg/m³ í hádeginu í dag.

Verst er ástandið við Dalsmára í Kópavogi en klukkan 14:00 voru þar 231 µg/m³. Ástandið annars staðar er viðunandi, eða grænt samkvæmt litakvarða Umhverfisstofnunar.

Í tilkynningu frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar segir:

Nú er hægur vindur og kalt, götur þurrar og ekki líkur á úrkomu í dag svo líklegt er að styrkur svifryks fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk sem eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Gert er ráð fyrir svipuðu veðri næstu daga og því líkur á að styrkur svifryks verði áfram hár.

Er almenningur þar jafnframt hvattur til að keyra minna og nýta sér almenningssamgöngur eða sameinast í bíla. Þá eru þeir sem viðkvæmir eru fyrir í öndunarfærum hvattir til þess að forðast útivist í nágrenni stórra umferðargatna.

Veður hefur verið með eindæmum stillt síðan í gærkvöldi og má búast við áframhaldandi stillu og þurru veðri fram á laugardag hið minnsta. Því er líklegt að mengunartölur haldist háar í borginni fram að helgi að minnsta kosti.

Innlendar Fréttir