9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

„Gríðarleg olíubrennsla“

Skyldulesning

Orkustefna og þar með loftslagsstefna stjórnvalda eru staddar í öngstræti vegna lamandi áhrifa græningja á vinstri kanti stjórnmálanna á stjórn landsins, en hugmyndafræði þeirra virðist hafa snúizt upp í afturhvarf til fortíðar.  Fyrirhyggjuleysið í orkumálum og hræsnin um náttúru og hlýnun andrúmslofts haldast hönd í hönd, því að samhliða öfgakenndri andstöðu við orkuframkvæmdir yfir 10 MW og jafnvel minni hafa græningjarnir tekið þátt í að semja loftslagsmarkmið fyrir Ísland, sem kynnt hafa verið á alþjóðavettvangi af núverandi forsætisráðherra sem skuldbindingar Íslands (55 % minnkun losunar 2030 m.v. 2005). 

Hið veigamesta í þessum markmiðum er reist á orkuskiptum í landumferð og hjá fiskiskipaflotanum, en forsenda þessara orkuskipta er nægt raforkuframboð frá endurnýjanlegum orkulindum.  Nú er staðfest, að raforkukerfi landsins er orðið yfirlestað, því að það ræður ekki við álag allra viðskiptavina að vetrarlagi.  Þurrkaár í fyrra er bara smjörklípa.  Fyrirsjáanlegur er orku- og aflskortur fram að næstu verulegu virkjun, þ.e. a.m.k. til 2027, þannig að loftslagsstefna stjórnvalda er ekki pappírsins virði og hefur aldrei verið annað en helber hræsni. 

Hlutur Orkustofnunar (OS) er skrýtinn í þessu máli.  Eðlilegt væri, að hún linnti ekki látunum, þegar fyrirsjáanlegt er, að spár hennar um þróun orkunotkunar fara fram úr spám um orkuframboð. Það hefur verið ljóst í nokkur ár, að yrði, þegar allt færi í gang eftir Kófið.

Fyrrverandi orkumálastjóri varaði iðulega við allt of þunglamalegu og óskilvirku leyfisveitingaferli fyrir nýjar virkjanir. Núverandi orkumálastjóri virðist vilja laga fyrirtækin að viðvarandi orkuskorti, því að hún hefur hvatt orkuseljendur til að selja ekki hæstbjóðanda raforkuna, nema hann styðji við orkuskiptin innanlands. Þetta er kúvending, sem gengur í berhögg við markaðslögmálin og getur framkallað ólögmæta mismunun mismunandi atvinnustarfsemi.

Þessi orkumálastjóri sendi um miðjan janúar 2022 bréf til allra raforkuframleiðenda landsins og spurði þá efnislega á þá leið, hvort þeir lumuðu á orkuvinnslugetu, sem þeir gætu hugsað sér að setja í gang í vetur. Þetta er afar sérkennileg spurning, því að enginn getur haft hag af því að halda aftur af orkuvinnslugetu fyrirtækis síns við núverandi aðstæður.  Eiginlega hlýtur fiskur að liggja undir steini hjá orkumálastjóra.  Vitað er um niðurdrátt í ýmsum jarðgufuvirkjunum, og hefur hann verið einna mestur í Hellisheiðarvirkjun, en til að vega upp á móti slíku þarf annaðhvort að tengja virkjun við annað jarðgufuforðabúr, auka niðurdælingu til að fá meiri gufu eða til bráðabirgða að fjölga vinnsluholum, en allt tekur þetta tíma.  Gefnir voru 2 sólarhringar til að svara.  Hefði ekki verið nær að hringja í forstjórana og fá uppgefna orkuvinnsluna vikuna á undan, bera saman við málgetuna og leita síðan skýringa á hugsanlegum frávikum ?  

Þann 21. janúar 2022 gerði Morgunblaðið nokkrar afleiðingar yfirstandandi orku- og aflskorts að umfjöllunarefni á forsíðu sinni með sömu fyrirsögn og á þessum pistli.  Umfjöllunin hófst þannig:

„Orkubú Vestfjarða og RARIK búa sig undir að brenna milljónum lítra af olíu á komandi mánuðum til þess að tryggja húshitun á Vestfjörðum og á Seyðisfirði.  Forstjóri Orkubúsins telur raforkuskort leiða tæplega MISK 500 kostnað yfir fyrirtækið á komandi þremur mánuðum, og að honum verði óhjákvæmilega velt yfir á neytendur á Vestfjörðum til lengri tíma litið.  Höggið jafngildi kISK 70 reikningi á hvert mannsbarn á svæðinu.“

Hér eru mikil firn á ferð, sem skrifa má á öfgafulla virkjanaandstæðinga, sem lagt hafa sig í líma við að leggja stein í götu nýrra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum, sem þó eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3.  Slíkar öfgar eru hrein skemmdarverkastarfsemi gegn velferð almennings á Vestfjörðum, þegar árlegur reikningur á hverja 4 manna fjölskyldu þar mun nema a.m.k. 280 kISK/ár vegna raforkuskorts.  Slíkar viðbótar byrðar eru ekkert gamanmál fyrir íbúa, sem mega una við háan vöruflutningakostnað og þ.a.l. væntanlega hærra verðlag en á höfuðborgarsvæðinu. Er ekki eðlilegt, að ríkið hlaupi undir bagga með íbúunum í ljósi þess, að handhafar ríkisvaldsins hafa brugðizt þeirri skyldu sinni (enginn þykist ábyrgur) að sjá íbúum landsins fyrir nægu framboði raforku (álagsgeta kerfisins er við þolmörk á vetrum) ?  Kostnaðurinn er lítilræði í hlutfalli við væntanlegar arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkissjóðs í ár. 

„Orkuskerðingin, sem fyrirtækin standa frammi fyrir, kemur í kjölfar þess, að Landsvirkjun hafði einnig tilkynnt öllum fiskimjölsverksmiðjum landsins, að þær myndu ekki fá keypta skerðanlega orku úr kerfum fyrirtækisins.  Hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna áætlað, að það leiði til þess, að 20 Ml af olíu verði brennt við bræðsluna á yfirstandandi vertíð.“ 

Þessi raforkuskerðing til fiskimjölsverksmiðjanna ríflega tvöfaldar orkukostnað þeirra, sem þýðir ríflega mrdISK 1 í viðbótarkostnað og ríflega 1 % aukningu á koltvíildislosun Íslands á árinu 2022.  Tekjutap stóriðjunnar vegna orkuskerðinga við hana getur orðið einni stærðargráðu meira eða um mrdISK 20 á árinu 2022.  Þetta er herfilegur minnisvarði um misheppnaða orkustefnu stjórnvalda undanfarinna ára, gjörsamlega að þarflausu, og nú verður umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Kötustjórnar 2 að setja hæl undir nára merarinnar til að afla orku fyrir landsmenn á þessu kjörtímabili, ef áratugurinn á ekki allur að markast af misráðinni orkulöggjöf, sem dregur niður lífskjörin og veldur atvinnuleysi í landinu, er fram líða stundir.

„Gögn, sem Landsvirkjun hefur veitt Morgunblaðinu aðgang að, sýna, að skammtímamarkaður með raforku hefur tekið miklum breytingum á örfáum vikum.  Á 90 dögum hafa s.k. mánaðarblokkir á þeim markaði hækkað um 46 %.  Í svari fyrirtækisins við fyrirspurn blaðsins segir, að vatnsbúskapur hafi ekki verið lakari um árabil vegna þurrka, og á sama tíma sé eftirspurn eftir raforku mikil.  „Raforkukerfið er fulllestað um þessar mundir, og Landsvirkjun hefur ekki getað annað allri eftirspurn frá núverandi viðskiptavinum.“

Þarna kemur fram, að raforkukerfið sé fulllestað.  Skýringin á því er ekki slæm staða miðlunarlóna, heldur aflskortur í kerfinu, þ.e. það vantar nýjar virkjanir inn á kerfið.  Miðlunarstaða Hálslóns hefur verið góð í haust og vetur, en samt er fiskimjölsverksmiðjum á Austfjörðum og reyndar í Vestmannaeyjum neitað um ótryggða orku, um 180 GWh.  Skýringin er ekki vatnsskortur fyrir austan, heldur aflskortur í kerfinu.  Hér sunnan heiða var hvorki sérlega þurrt né kalt árið 2021, svo að skýringar á lágri miðlunarstöðu Þórisvatns er ekki að leita í veðrinu, heldur í miklu álagi á vatnsorkuverum Tugnaár/Þjórsár m.v. miðlunargetuna.  

Iðnaðurinn framleiddi á fullum afköstum og e.t.v. hafa önnur orkuver framleitt minna en vant er af illviðráðanlegum ástæðum.  Þessi staða kann að boða árlegan orkuskort fram að næstu virkjun, sem um munar. 

Daginn eftir, 22.01.2022, rakti Morgunblaðið fleiri afleiðingar raforkuskortsins á forsíðu sinni undir fyrirsögninni:

„Skortur hefur víða áhrif“.

Af lýsingunni varð enn skýrara, að orkuskiptin hafa steytt á skeri, og það er urgur í sveitarstjórnarmönnum út af því, að miklar orkuskiptafjárfestingar nýtast ekki, heldur lendir nú mikill viðbótar rekstrarkostnaður á fjárfestum og/eða rekstraraðilum, þar sem olíuverð er nú í hæstu hæðum. Téð umfjöllun hófst þannig:

„Forsvarsmönnum Vestmannaeyjaferjunnar hefur verið tilkynnt, að komið geti til skerðingar á afhendingu raforku til rekstrar Herjólfs.  Fyrirtækið hefur keypt skerðanlega raforku til starfseminnar.  Mun olíunotkun skipsins margfaldast, verði skerðingin að veruleika. 

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði, kallar eftir tafarlausum úrbótum á raforkumálum Vestfjarða.  Tómt mál sé að tala um orkuskipti, þegar fjórðungurinn standi frammi fyrir því að þurfa að brenna milljónum lítra af olíu á komandi mánuðum til að tryggja húskyndingu.  Þá komi ekki til greina að samþykkja stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum fyrr en tryggt verði, að slík stofnun girði ekki fyrir nauðsynlegar virkjanaframkvæmdir.  Forstjóri Orkubús Vestfjarða ítrekar, að hagfelldasti kosturinn væri að reisa 20-30 MW virkjun í Vatnsfirði í Vestur-Barðastrandasýslu.“

Hér skal taka eindregið undir með bæjarstjóranum á Ísafirði.  Það hefur verið einstaklega ógeðfellt að fylgjast úr fjarlægð með því, hvernig ofstopa-umhverfisafturhald utan Vestfjarða hefur rekið  skefjalausan áróður gegn því, að vilji Vestfirðinga og Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar 3 um vatnsorkuver á Vestfjörðum nái fram að ganga.  


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir