Guðdómlega ljúffengur helgarmatseðill í boði Snædísar á Silfru – DV

0
151

Snædís Xyza Mae Ocampo matreiðslumeistari og ástríðukokkur býður upp á guðdómlega ljúffengan helgarmatseðil sem ljúft er að njóta í kósíheitum um helgina. Það styttist óðum í páskana og hægt er að byrja láta sig hlakka til og finna bragðið af páskunum. Allar uppskriftirnar koma úr smiðju Snædísar og eru ómótstæðilega girnilegar. Snædís hefur mikla ástríðu fyrir starfi sínu sem kokkur og hefur elskað matargerð frá því hún man eftir sér.

Fær að hanna eldhúsið á Ion Adventure

Snædís er yfirkokkur á Silfra á veitingastaðnum á Ion Adventure Hótel á Nesjavöllum. „Framundan eru allskonar skemmtileg verkefni sem ég er búin að taka mér fyrir hendur. Ég hef mjög gaman að því að hafa fullar hendur og hafa nóg að gera. Einnig er verið að stækka hótelið þessa dagana og ég fæ þann heiður og það skemmtilega verkefni að hanna eldhúsið. Mér finnst mjög spennandi að fá að taka þátt í svona stóru og flottu verkefni og er mjög spennt að sjá útkomuna á því,“ segir Snædís.

Matagerð er ástríða hjá Snædísi og hefur hún mikinn áhuga á að kynna sér matargerð ólíkra menningarheima. „Mér finnst alveg yndislegt hvað matargerð getur sameinað allskonar menningarheima og fólk. Ég er ávallt forvitin að vita hvað fólk borðar og hvaða siði fólk hefur þegar kemur að mat og matargerð. Mér finnst alveg yndislegt að elda og baka með stráknum mínum sem hefur sýnt matreiðslu ótrúlega mikinn áhuga þrátt fyrir að vera aðeins tveggja og hálfs árs gamall. Hann er mikill matgæðingur og með frekar breiða bragðlauka sem ég er mjög hreykin af. Enda leyfi ég honum alltaf að vera með mér í eldhúsinu og við erum mjög dugleg að elda og baka saman.“

„Matur hefur alltaf verið stór partur af mínu lífi og hef ég alltaf frá minni fyrstu tíð einhverju sem tengist mat, hvort sem það er framleiðsla, pökkun eða elda mat. Svo hefur lífið kringum mína ætt snúist mikið um mat og matargerð, í ættinni eru margir matreiðslumenn og ástríðukokkar. Matreiðsla fyrir mér, eru sterkar tilfinningar sem tengjast gjarnan veðrinu og líðan. Veður ræður til að mynda miklu hvað mig langar að elda að hverju sinni. Ef það er kalt út í, smá sól, þá er ég meira í kósí matnum, eins og súpu og brauði eða elda lambaskanka með kartöflumús og brúnni sósu. Ef það er heitt úti og sól þá langar mig í grillaðan mat með góðu víni,“ segir Snædís dreymin á svip.

Hér er Snædís búin að töfra fram drauma helgarmatseðilinn sinn fyrir lesendur með sínum uppskriftum í forgrunni.

Föstudagur – Sjávarréttar tagliatella að hætti Snædísar

„Rjóma sjávarrétta pasta er í miklu uppáhaldi hjá mér og þetta er mín uppáhalds uppskrift.“

Sjávarréttar tagliatelle

Fyrir 2-3

Sósan

1 stk. hvítlauksgeiri

½ stk. laukur

200 g   hvítvín

500 g   rjómi

½ stk.   kjúklingakraftkubbur

Salt eftir smekk

Sítrónusafi eftir smekk

Skerið hvítlauksgeirana og lauk í smátt. Svitið laukana í pott með smá olíu. Bætið svo hvítvíni út í og látið suðuna koma upp. Bætið við rjóma og kjúklingakrafti við og sjóðið niður um helming. Smakkið til með salt og sítrónusafa.

Ferskt tagliatelle

15 knúpar

Saxaður graslaukur eftir smekk

Söxuð steinselja eftir smekk

Rifinn Tindur ostur  eftir smekk

300 g úthafsrækja (hægt er að nota hvaða rækju sem er)

300 g pönnusteikt hörpuskel

Sjóðið tagliatelle í um það bil 4 mínútur, sigtið tagliatelle og blandið því ásamt rækjunum og hörpuskelinni saman við sósuna.

Laugardagur – Lambakótelettur með kartöflusalati

„Á laugardögum er vert að gera vel við sig og íslenska lambið er eitt af mínum uppáhalds. Ekkert betra en að fá lambakótelettur með ljúffengu meðlæti sem kitlar bragðlaukana.“

Lambakótelettur

Fyrir 2

10 stk. lambakótelettur

2 tsk.   hvítlauksduft

4 msk. paprikuduft

2 msk. reykt paprikuduft

1 msk. laukduft

3 msk. provence krydd

Salt og pipar eftir smekk

Ólífuolía

Marínerið kjötið upp úr kryddinu og leyfið að liggja í um það bil 2 klukkustundir. Gott er að grilla eða pönnu steikja kóteletturnar.

Chimichurrri

1 búnt steinselja

1 stk. hvítlauksgeiri

1 stk. shalottlaukur

1 stk. rautt chilli

Ólífuolía

Rauðvínsedik eftir smekk

Salt og pipar eftir smekk

Skerið fræin úr chilli, allt sett í matvinnsluvél með olíu. Smakkað til með salt og pipar og rauðvínsediki.

Smælki kartöflusalat

200 g soðnar smælki kartöflur

100 g sýrður rjómi

100 g majónes

1 tsk. hvítlauksduft

Saxaður graslaukur eftir smekk

Salt eftir smekk

Djúpsteikið smælki kartöflur á 180°C í um það bil 3 mínútur. Blandið rest saman og smakkið til með salti.

Sunnudagur – Egg Benedict

„Ég elska bröns, hvað þá hlaðborðs bröns, það sem ég fæ mér alltaf er Egg Benedict. Það er mitt allra uppáhalds.“

Egg Benedikt

Hleypt egg

Setjið vatn í pott og stillið helluna á meðal hita. Þegar vatnið byrjar að sjóða, lækkið þá undir og bætið ediki út í vatnið. Brjótið eitt egg í litla skál og byrjið að búa til hvirfil í vatninu í pottinum með sleif. Hellið egginu út í miðjuna á hvirflinum og leyfið vatninu að snúa því í hringi. Sirka 2-3 mínútur fyrir linsoðið egg og 4-5 mínútur fyrir miðlungs- eða harðsoðið egg.

Náið egginu upp með skeið eða ausu og endurtaktu með hin eggin.

Hollandaise sósa

4 stk. eggjarauður

250 g smjör

Safi úr ¼ sítrónu

Setjið eggjarauður í mjóa mæli könnu og sítrónusafa, þeytið með töfrasprauta, bræðið smjörið í pott og hellið rólega á meðan þið þeytið með töfrasprauta.

Skerið súrdeigsbrauð, hægt er að nota hvaða brauð sem er. Gott er að grilla eða steikja brauðið upp úr smjöri. Setjið svo skinku á brauðið, hleypta eggið, og hollandaise sósu. Gott er að setja saxaðan graslauk og toppa þannig þennan dásamlega rétt Egg Benedikt sem er líka fullkominn í páskabrönsinn.