gudmundur-a-hafro-gengur-til-lids-vid-sfs

Guðmundur á Hafró gengur til liðs við SFS

Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, hefur verið ráðinn til starfa hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Guðmundur Þórðarson, fiskifræðingur og sviðsstjóri botnsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, hefur verið ráðinn til Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Hann lét af störfum hjá Hafrannsóknastofnun um mánaðamótin og hefur störf hjá SFS um miðjan maí.

Í samtali við Morgunblaðið segir Guðmundur að eftir sé að móta nýja starfið, en verkefni hans muni eftir sem áður snúast um fiskifræði. Hans hlutverk á nýjum vinnustað verði m.a. að túlka ráðgjöf og rannsóknir Hafrannsóknastofnunar og Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, og fræða félagsmenn SFS um þessi efni. Einnig að taka þátt í að móta stefnu og áhersluatriði samtakanna. Guðmundur mun starfa við hlið Kristjáns Þórarinssonar stofnvistfræðings, sem um árabil hefur starfað hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og SFS.

Guðmundur hóf störf hjá Hafrannsóknastofnun sem sumarstarfsmaður og í tímabundnum verkefnum í lok síðustu aldar, en hefur verið fastur starfsmaður þar frá árinu 2005. Hann er með próf frá Háskóla Íslands í líffræði, vann að meistaraprófsverkefni á Hafrannsóknastofnun og er doktor í fiskifræði frá Imperial College í London. Doktorsverkefni hans bar heitið: Vöxtur og kynþroski ýsu og áhrif þess á nýtingu.


Posted

in

,

by

Tags: