9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Guðmundur Árni missti drengina sína í eldsvoða – „Lífið verður aldrei aftur eins“

Skyldulesning

Þáttur númer 250 af Mannamáli Sigmundar Ernis Rúnarssonar er á dagskrá Hringbrautar á föstudagskvöld. Þar ræðir Sigmundur við Guðmund Árna Stefánsson, fyrrverandi sendiherra, ráðherra og bæjarstjóra Hafnarfjarðar, en síðastnefnda embættið freistar hann nú að hreppa aftur því Guðmundur Árni er í oddvitasæti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði fyrir bæjar- og sveitastjórnarkosningarnar í vor.

Þeir Sigmundur og Guðmundur Árni ræða málin vítt og breitt og í síðari hluta þáttarins rifja þeir upp sárustu minningu Guðmundar Árna, en hann og eiginkona hans misstu tvo elstu syni sína í eldsvoða árið 1985.

„Þetta var 16. febrúar 1985. Ég man það eins og gerst hafi í gær. Það er nú ekki langt um liðið síðan síðast var 16. febrúar og við höfum alltaf appelsínuköku þennan dag og hugsum til þeirra, sem maður gerir auðvitað líka á hverjum einasta degi,“ segir Guðmundur Árni.

Hann segist hafa haldið á sínum tíma að  hann myndi aldrei líta glaðan dag aftur. „Lífið verður aldrei aftur eins. Ég hélt ég gæti aldrei hlegið eða brosað aftur, lífinu væri að hluta til lokið, ég gæti haldið áfram svona á sjálfstýringu en meira yrði það ekki.“

En það var ekki í boði að taka þessa afstöðu: „Það er ekki í boði þegar svona hlutir gerast, ég átti tvö önnur lítil börn og það þurfti að ala önn fyrir þeim. Lífið heldur áfram og það er svo skrýtið þegar svona hlutir gerast, að höggið er gríðarlegt og þú ert laminn kaldur og fjölskyldan, en svo heldur lífið áfram, þessi hversdagur, þessi maður úti á götu, hann er bara að fara í vinnuna sína.“

Guðmundur Árni lýsir því hvað þetta áfall vekur skrýtnar tilfinningar. „Ég fylltist öllum þessum tilfinningum sem þarna er hægt að tína til, sektarkenndin, af hverju gat ég ekki passað upp á drengina mína. Reiði út í guð minn. Ég sættist síðan við hann að hluta.“ Guðmundur Árni segir að hann hafi enga sanngirni getað séð í því að guð hafi kallað drengina hans til sína svona unga, en þeir voru 4 og 8 ára þegar harmleikurinn reið yfir. Þeir höfðu ekki fengið tækifæri til að lifa lífinu. Hvers vegna var hann sjálfur ekki frekar hrifinn burtu?

„Ég hugsa til þeirra og bið fyrir þeim á hverjum einasta degi. Þeir hétu – og heita – Brynjar Freyr og Fannar Karl. Við eignuðumst síðar tvo aðra drengi og ákváðum að nefna þá Brynjar og Fannar. Ekki nákvæmlega nöfnin öll og ekki vegna þess að þeir væru að koma í staðinn fyrir hina tvo. Það var aldrei hugsunin, en við vildum láta nöfnin þeirra enduróma á heimilinu, að þeir væru á þann hátt með okkur, en þó ekki í þessum tveimur einstaklingum.“

Guðmundur Árni segir að það hafi gert honum og eiginkonu hans gott að tala um hlutina, ekki veigra sér við að ræða voðaatburðinn og tala um drengina tvo sem dóu, hvernig þeir voru og svo framvegis. „Við fórum svolítið í gegnum þetta á því, ekki á því að læsa þetta inni.“

Sjá nánar í Mannamáli á Hringbraut á föstudagskvöld. 

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir