10.3 C
Grindavik
16. september, 2021

Guðmundur Felix: „Lífið er ekki ömurlegt því þú getur ekki farið til útlanda eða á pöbbinn“

Skyldulesning

Guðmundur Felix Grétarsson slasaðist illa og missti báða handleggi í vinnuslysi fyrir rúmlega tuttugu árum. Hann hefur beðið undanfarin sjö ár eftir að gangast undir handaágræðslu.

Hann hvetur landsmenn til að líta á aðstæðurnar vegna kórónuveirufaraldursins öðrum augum. Í myndbandi á Facebook segir hann að hver útkoman verði stjórnast að því hvernig fólk bregst við aðstæðum, þó það sé leiðinlegt að komast ekki á barinn eða ræktina, þá er það ekki endir alheimsins.

„Mig langar að segja nokkur orð út af þessu Covid-ástandi sem allir eru að brjálast yfir, og eru í einhverjum kvíða, þunglyndi og sjálfsvorkunn og öllu því sem fylgir því. Ég er ekki að fara að segja neitt nýtt en það er gott að minna sig á þessa hluti og setja hlutina í samhengi,“ segir Guðmundur Felix.

„Eins og mörg ykkar vita þá hef ég gengið í gegnum óteljandi breytingar. Lífið í dag er ekki bein afleiðing vegna þessara breytinga heldur vegna þess hvernig ég ákvað að bregðast við þessum breytingum. Þegar svona stórir atburðir gerast, eins og Covid eða að missa hendur, eitthvað svona sem breytir öllu, þá höfum við rosalega tilhneigingu til að flokka það sem gott eða slæmt. En raunverulega þá vitum við það ekki, hvort það sé gott eða slæmt, fyrr en löngu löngu síðar þegar við lítum til baka og sjáum hver afleiðingin er. Því að gott eða slæmt er „vil ég þetta eða vil ég þetta ekki.“ Stundum er það gott fyrir okkur það sem við viljum ekki, ég meina hversu margir hafa misst vinnu sem þeir þola ekki?“

Viðbrögð skipta máli

Guðmundur Felix segir að það sé gott að líta til baka og meta aðstæður þannig.

„Því að það sem mun standa upp úr þegar þú lítur til baka og manst eftir þessu covid ári, er hvernig þú brást við. Ekki hvað þríeykið gerði, eða Trump eða Kári Stefáns, það er hvernig brást ég við. Hver einasta manneskja hérna er þeim hæfileika gædd að geta aðlagast og komið til baka úr alls konar rugli, ef hún vill það. Vandinn er kannski að það vilja það ekki allir og finnst voða þægilegt að vera í sjálfsvorkunn og segja heiminum hvað við höfum það slæmt, en ef við tökum fulla ábyrgð á því þá er það viðbrögð okkar.“

Guðmundur var rafvirki áður en hann missti hendurnar.

„Ég var rafvirki og það er enginn að ráða handalausa rafvirkja í dag, en það breytir ekki því að ég get gert alls konar aðra hluti. Mig langaði að vera rafvirki og elskaði það, en það er bara ekki í kortunum,“ segir Guðmundur og bætir við að hann sé alls ekki að tala um fólk sem hefur misst ástvini vegna Covid.

„Ég er að tala um okkur hin sem erum að upplifa óþægindi því það er verið að setja einhverjar reglur á okkur.“

Guðmundur Felix segir að 90 prósent jarðarbúa myndu gefa handlegg fyrir að hafa það sem við höfum. „Ef þú talar íslensku eru mjög miklar líkur á því að þú búir við allsnægt tækifæra,“ segir hann og nefnir ódýra læknisþjónustu, atvinnuleysisbætur, aðgangur að tölvu og interneti.

„Ef þú hefur aðgang að interneti þá geturðu lært hvað sem þér dettur í hug,“ segir hann.

Formúlan A+V=Ú

Að lokum segir Guðmundur að ef það er eitthvað sem hann vill að fólk taki frá orðum hans, sé formúlan A+V=Ú.

„Ef þú bara manst þetta í öllum aðstæðum: Atburður plús viðbrögð, stjórna útkomunni. Þú getur lítið gert í atburðinum en þú getur ráðið hver viðbrögð þín verða. Lífið er ekki ömurlegt því þú getur ekki farið til útlanda eða á pöbbinn. Hvernig ég bregst við þessum aðstæðum skiptir öllu.“

Guðmundur Felix hvetur fólk til að læra eitthvað nýtt, halda sig við rútínu og passa upp á svefn, hreyfingu og mataræði.

„Ég er búinn að vera í biðástandi í sjö ár og ég hef það fínt, vegna þess að ég vakna alltaf á sama tíma, hreyfi mig reglulega, borða hollt og er að læra nýja hluti á hverjum einasta degi,“ segir hann, en Guðmundur hefur beðið eftir nýjum handleggjum í sjö ár.

„Þegar ég fæ símtalið sem ég hef beðið eftir í sjö ár, þá er sá tími kominn. Mundu bara, verðmæti liggja í þér, ekki í því sem þú átt eða áttir.“

Horfðu á myndbandið hér að neðan.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir