5 C
Grindavik
27. febrúar, 2021

Guðmundur segir að svona sé hægt að verja börn gegn viðbjóði á YouTube: Saklaus jólasveinamyndbönd geta breyst í blóðugar hryllingsmyndir

Skyldulesning

Undirritaður man vel eftir leiðinlegu atviki sem átti sér stað þegar hann var í grunnskóla. Ég hef líklega verið í öðrum, þriðja eða fjórða bekk, og var í tölvutíma, eða upplýsingamennt. Að þessu sinni máttum við krakkarnir ráða því hvað við vildum gera í tölvunni. Í stað þess að fara á tölvuleikjasíður eins og Leikjanet.is eða Y8.com, þá ákvað ég að fara á YouTube.

Þar var af nægu að taka og hægt að finna afbragðsskemmtun í stjörnustríðs-geislasverðabardaga. Eftir að hafa horft á nokkra slíka kom óhugnanlegt myndband þar sem  mikið brenndur mannslíkami sást umkringdur mikilli gufu. Ég varð skíthræddur og slökkti á tölvunni. Mín viðkvæma sál þoldi þetta ekki.

Þó svo að ég hafi lifað mjög svo ágætu lífi eftir þetta, nokkuð óskaddaður, þá var mér hugsað til þessa atviks í síðustu viku, þegar ég frétti af því að drengir í sérdeild í grunnskóla á Íslandi hefðu verið að horfa eftirlitslaus á jólasveinamyndbönd á YouTube. Það virðist kannski vera allt í lagi. En sjálfsstjórnandi spilarinn á YouTube sér til þess að sífellt koma ný og ný myndbönd, og í tilfelli þessara drengja fóru þeir úr saklausum jólasveinamyndböndum yfir í blóðuga hryllingsmynd með Grýlu í aðalhlutverki. Mynd sem merkt er ekki við hæfi barna en spilast engu að síður í beinu framhaldi af barnaefni.

Undirritaður er ekki fylgjandi mikilli ritskoðun eða bannlistum líkt og tíðkuðust á áttunda og níunda áratugnum en þegar börn eru annars vegar þá er mikilvægt að leita leiða til að verja þau við slíku efni.

Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans og samfélagsmiðla- og tæknisérfræðingur, er með nokkur ráð til að forða börnum frá óviðeigandi efni.

Stundum lendir maður í svartholi

Guðmundur segir að ein einfaldasta og besta lausnin sé fyrirbæri sem gengur undir nafninu YouTube Kids. Þar er haugur af efni sem allt hefur verið ritskoðað og ætti því að vera barnvænt. Þó eru hængir á. Ekkert af því efni sem finna má á YouTube Kids er á íslensku, auk þess er það fyrir takmarkaðan aldurshóp, en samkvæmt Guðmundi fara krakkar í kringum fjórða bekk að vaxa upp úr því.

Líkt og hefur verið komið inn á þá græðir YouTube á því að fólk horfi sem lengst. Og því sér það til þess að áhorfendur haldi alltaf áfram að horfa, til dæmis með því að setja ný myndbönd í gang þegar búið er að horfa á eitt. Algrímið velur það sem það telur að henti best en áttar sig ekki endilega á því að það sé barn sem er að horfa, og því verður stundum óviðeigandi efni fyrir valinu. Guðmundur bendir á að stundum endi maður hreinlega í einhverju svartholi.

„Þetta gerir mig auðvitað að leiðinlegasta pabba í heimi“

Að hans mati er í raun og veru ekki vöntun á tólum til að verja börnin heldur snúist málið frekar um að kunna að nota þau. Til að mynda fylgist hann sjálfur gjarnan með því sem krakkarnir hans horfa á yfir öxlina á þeim. „Ég leyfi þeim bara að vera á YouTube Kids, en þegar ég er heima mega þau vera á alvöru YouTube, en þá fylgist ég með. Þetta gerir mig auðvitað að leiðinlegasta pabba í heimi en það verður bara að hafa það, “ segir Guðmundur og hlær.

Þá bendir hann á að á YouTube sé hægt að fara í stillingar og stöðva efni sem sé fyrir fullorðna (e. mature), eða inniheldur nekt (e. nudity) og svo framvegis. Þá séu einnig aðferðir sem hægt sé að beita í snjallsímum til þess að stjórna skjátíma barnanna, þar séu tímatakmarkanir sem eru hentugar. Guðmundur segir að lykillinn sé fyrst og fremst gagnrýnin hugsun og sé henni beitt sé málið kannski ekkert svo flókið.

YouTube alls ekki verst

„Ég hef þó alls ekki mestar áhyggjur af YouTube, það er í raun bara fullt af drasli, en maður er kannski ekkert mikið að finna klám og ofbeldi þar. Það eru til síður á netinu þar sem eru afhausanir hjá Isis og þannig ógeð er bara sýnt án ritskoðunar, en á YouTube er yfirleitt lokað á slíkt efni mjög fljótt, “ segir Guðmundur. Hann viðurkennir að þegar krakkar séu komnir á ákveðinn aldur, eins og unglingsárin, þá sé hreinlega ekki alltaf hægt að stöðva þau. „Þá er bara best að taka samtalið. Þegar þú ert kominn á ákveðinn aldur þá finnur þú þetta.“

Hvað skóla varðar segir Guðmundur að yfirleitt séu einhverjar síur til staðar sem sjá til þess að börnin fari ekki efnisvillt. Þó sé auðvitað ekki alltaf víst að þær dugi. Það borgi sig því að vera stöðugt á verði.

Innlendar Fréttir