gular-vidvaranir-gefnar-ut

Gular viðvaranir gefnar út

Gul viðvörun hefur þegar tekið gildi á Suðurlandi.

Gul viðvörun hefur þegar tekið gildi á Suðurlandi. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð og Vestfirði.

Mikilli ölduhæð er jafnframt spáð á miðunum suðvestur- og vestur af landinu, allt að 18 metrum. Þetta hefur áhrif á tvö spásvæði, Faxaflóa og Suðurland. Reikna má með að ölduhæð við ströndina nái 10-12 metrum og hún nái hámarki á mánudagskvöld. Búist er við að ástandið vari fram á þriðjudag.

Tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu kl. 18

Viðvörunin fyrir höfuðborgarsvæðið verður í gildi frá klukkan 18 í dag til klukkan 18 á morgun. Spáð er suðvestan 13 til 20 metrum á sekúndu og talverðum éljum. Viðbúið er að hvassara verði í éljahryðjum og gætu vindhviður farið yfir 35 metra á sekúndu staðbundið. Skafrenningur verður og auknar líkur á eldingum. Líkur eru á samgöngutruflunum og foktjóni, að því er kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Á Suðurlandi tók viðvörunin gildi klukkan 14 í dag og verður hún í gildi til kl. 18 á morgun.

Á Vestfjörðum tekur viðvörunin gildi klukkan 23 í kvöld og verður hún í gildi til klukkan 9 í fyrramálið. Þar gengur í austan- og norðaustan 15-23 m/s með snjókomu og skafrenningi. Spáð er lélegu skyggni og ferðaveðri.


Posted

in

by

Tags: