Gulli Briem hættur í Mezzoforte – Vísir

0
113

Gulli Briem hættur í Mezzoforte Trommarinn Gunnlaugur Briem hefur ákveðið að segja skilið við hljómsveitina Mezzoforte og einbeita sér að sólóferli sínum. Frá þessu er greint á Facebook-síðu sveitarinnar.

„Við óskum honum alls hins besta og þökkum honum fyrir langa vináttu og gjöfult samstarf,“ segir meðal annars í tilkynningu frá hljómsveitinni.

Hljómsveitin hafði skipulagt tónleikaferðalag á þessu ári og segir í tilkynningunni að þau plön haldist óbreytt. Trommuleikararnir Ruben Dalen og Martin Valihora munu fylla í skarð Gulla á tónleikunum.

Gulli Breim er einn ástsælasti trommuleikari landsins og hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi um langt skeið. Hann var einn af stofnmeðlimum Mezzoforte en hefur þar að auki spilað með hljómsveitum á borð við Ljósin í bænum, Dúndrið, Model, Mannakorn, Park project og Ófétin. Þá hefur hann gefið út nokkrar sólóplötur undir nafninu Earth Affair og leikið inn á plötur hjá öðrum listamönnum.

Gulli fagnaði 60 ára afmæli á síðasta ári með glæsilegum tónleikum þar sem hann fór yfir ferilinn.