5 C
Grindavik
6. maí, 2021

Gylfaginning

SkyldulesningÞorsteinn Siglaugsson skrifar

Gylfi Zoega hagfræðiprófessor kom í Kastljós RÚV þriðjudaginn 30. mars til að ræða hagræn áhrif aðgerða gegn kórónaveirunni. Virtist Gylfa ekki þykja hrun ferðaþjónustunnar skipta mjög miklu máli, enda stæði sú grein aðeins fyrir um 10% landsframleiðslunnar. Því væri í lagi að fórna því sem hann nefndi „10% hagkerfið“ fyrir „90% hagkerfið“. Virtist Gylfi telja að með þessu væri hann að líta til heildarhagsmuna landsins.

Nú horfum við fram á tæplega 1200 milljarða tjón hins opinbera á árunum 2020-2023, sem nemur tekjum þess í heilt ár, meira en 20 nýjum Landspítölum, og leiðir beint af aðgerðum til að hægja á útbreiðslu pestarinnar. Afleiðingarnar verða verulega skert geta hins opinbera til að standa undir grunnþjónustu, hundruð dauðsfalla sökum þess heilsutjóns sem af atvinnuleysi leiðir, stórtjón á framtíðarmöguleikum yngstu kynslóðarinnar, alvarlegasta geðheilbrigðisvá á síðari tímum, og svo mætti lengi telja. Þessu hefði mátt afstýra með hnitmiðuðum og yfirveguðum viðbrögðum í takt við hina raunverulegu hættu. Kostnaðurinn hefði orðið örlítið brot af þessari upphæð. Og nú stefnir jafnframt í að búið verði að bólusetja þá sem þörf er á að bólusetja innan mánaðar. En jafnvel þá má ekki hætta að auka við tjónið að mati prófessorsins.

Í þessu ljósi er auðvitað fráleitt að málflutningur Gylfa grundvallist á einhverju mati á heildarhagsmunum.

En aftur að prósentuhagkerfum prófessorsins. Sé brotthvarf 10% landsframleiðslunnar jafn léttvægt og Gylfi heldur fram, myndi þá breyta svo miklu þótt hlutfallið væri aðeins hærra? Væru 15% okkur að skaðlausu? Væri það okkur þá til svo mikils tjóns þótt hinar stóru útflutningsgreinarnar yrðu einfaldlega lagðar af líka? Sjávarútvegurinn stendur ekki fyrir nema 5% landsframleiðslunnar. Og hlutur stóriðjunnar er kannski um 2%. Ferðaþjónustan var um 8% áður en hún var lögð niður. Þá eru samt um 85% hagkerfisins eftir, sé þessari byltingarkenndu aðferðafræði fylgt, og við værum bara í nokkuð góðum málum, eða hvað?

Meginhluti þjóðarinnar myndi að vísu missa vinnuna, en til hvers eru atvinnuleysisbætur? Og eftir stæði auðvitað hið opinbera: Það má lengi lifa á að kenna fólki þau merku fræði að hagkerfi sé ekki kerfi, heldur samsafn ótengdra þátta sem allir eru jafngildir og hafa engin áhrif hver á annan.

Þessa kenningu mætti kalla Gylfaginningu, höfundinum til heiðurs.

Að vísu bærist fremur lítill gjaldeyrir til landsins, en hvað um það? Innflutninginn mætti einfaldlega leggja af líka. Þannig náum við jafnframt að tryggja landamærin endanlega, svo hingað berist alveg örugglega aldrei nein kórónaveirusmit. Því það er auðvitað það eina í öllum heiminum sem skiptir máli.

Höfundur er framkvæmdastjóri.


Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor telur að búa þurfi til heildaráætlun með heildarhagsmuni að leiðarljósi, ekki aðeins einnar atvinnugreinar, þegar litið er til komu ferðamanna hingað til lands. Hann telur viðleitni stjórnvalda til að greiða leið ferðamanna hingað til lands frá og með 1. maí koma of snemma. Hann segir að stjórnvöld virðist með áformum sínum „í öðrum heimi.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir