10.2 C
Grindavik
24. júní, 2021

Hætt að taka þátt í tísku­sýningum trúarinnar vegna

Skyldulesning

Bandaríska ofurfyrirsætan Halima Aden er hætt að taka þátt í tískusýningum vegna trúar sinnar. Hún segist margoft hafa þurft að fórna gildum sínum fyrir vinnu sína en kórónuveirufaraldurinn hafi gefið henni svigrúm til að endurskoða afstöðu sína.

„Móðir mín er búin að vera að biðja mig í mörg ár um að opna augun. Þökk sé Covid og pásunni frá bransanum hef ég loksins áttað mig á því hvar ég leiddist af brautinni á hijab-vegferð minni,“ skrifaði Aden á Instagram í vikunni. Þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gömul hefur hún setið fyrir á forsíðum breska Vogue, arabíska Vogue og Allure.

Aden var uppgötvuð af umboðsskrifstofunni IMG Models þegar hún var 18 ára gömul, en á þeim tíma tók hún þátt í keppninni ungfrú Minnesota. Síðan þá hefur hún tekið þátt í tískusýningum fyrir meðal annars Rihönnu og Kanye West, og komið fram á tískuvikunni í New York.

Í einlægum færslum á Instagram hrósaði hún Rihönnu fyrir að leyfa sér að nota hijab að eigin vali þegar hún kom fram á tískusýningum söngkonunnar. Hún hefði margoft þurft að nota flíkur sem hijab, þvert á eigin sannfæringu, og misst af bænastundum fyrir störfin. Þá minnist hún þess að hafa grátið eftir fyrirsætustörf þar sem hún þorði ekki að mótmæla leiðbeiningum á setti.

„Móðir mín bað mig um að hætta fyrirsætustörfum fyrir löngu síðan. Ég vildi óska þess að ég hefði ekki farið í svo mikla vörn. Hún var sú eina sem hafði einlægan hag minn fyrir brjósti.“

Hún segist eingöngu geta kennt sjálfri sér um upplifun sína, enda hafi hún verið uppteknari af tækifærum en því sem „raunverulega var í húfi“. Fjölmargir kollegar Aden hafa lýst yfir stuðningi við ákvörðun hennar, þar á meðal systurnar Gigi og Bella Hadid.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir